Grunnskólum og leikskólum lokað á morgun

Horft yfir Kópavog.
Horft yfir Kópavog. mbl.is

Ótíma­bundið verk­fall 260-270 fé­lags­manna Efl­ing­ar, sem vinna hjá Kópa­vogs­bæ, Seltjarn­ar­nes­bæ, Mos­fells­bæ og Sveit­ar­fé­lag­inu Ölfusi, hefst kl. 12.00 í dag. Verkfallið hefur áhrif á fjóra grunnskóla og fjóra leikskóla í Kópavogi, þar sem starfsfólk Eflingar sér um þrif.

Samkvæmt upplýsingum frá Kópavogsbæ er allt ræstingafólk Kársnesskóla, Álfhólsskóla, Kópavogsskóla og Salaskóla í Eflingu. Húsnæði þessara skóla verður lokað á morgun ef samningar nást ekki.

Leikskólarnir Furugrund, Fífusalir, Rjúpnahæð og Kópasteinn verða opnir í dag en þeim verður, líkt og grunnskólunum, lokað á morgun. 

Starfsmenn sem sinna þrifum á bæjarskrifstofum og menningarhúsum Kópavogs eru í Eflingu. Menningarhús verða lokuð eins og verið hefur í samkomubanni verði ekki samið.

Velferðarsvið

36 félagsmenn Eflingar sem sinna heimaþjónustu fara í ótímabundið verkfall. Sótt verður um undanþágu fyrir einn starfsmann heimaþjónustu sem mun sinna brýnustu þjónustu við skjólstæðinga en almenn aðstoð við þrif og heimilishald fellur niður. Þjónusta í Dvöl, athvarfi fyrir geðfatla, fellur einnig niður.

Sótt verður um undanþágu vegna starfsmanna í sértækri heimaþjónustu, sem sinna nauðsynlegum daglegum stuðningi við einstaklinga í heimahúsum.

Einnig verður sótt um undanþágu fyrir félagsmenn Eflingar sem starfa í Roðasölum 1, sem er hjúkrunarsambýli og sérhæfð dagþjálfun fyrir aldraða með heilabilun og þá sem starfa í búsetuúrræði fyrir geðfatlaða í Hörðukór.

Umhverfissvið

Eftirfarandi þjónusta á vegum umhverfissviðs mun skerðast í verkfalli Eflingar:

  • Umhirða á og við stofnanir bæjarins þ.m.t. við skóla og leikskóla
  • Viðhald og uppsetning á umferðarmerkjum og skiltum
  • Almenn þjónusta við stofnanir bæjarins
  • Hreinsun niðurfalla og losun á stíflum á og í gatnakerfi bæjarins
  • Útkeyrsla og viðgerðir á sorptunnum til fyrirtækja og einkaaðila
  • Starfsemi bílastæðasjóðs Kópavogs
  • Starfssemi vatnsveitu Kópavogs, neyðarþjónustu verður einungis sinnt
  • Umhirða trjágróðurs
  • Viðgerðir á leiktækjum við leikskóla
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka