„Umhverfismálunum má ekki vera ýtt til hliðar“

„Ég verð að játa að ég sakna skýrari stefnu ríkisstjórnarinnar …
„Ég verð að játa að ég sakna skýrari stefnu ríkisstjórnarinnar um græna efnahagsuppbyggingu sem byggir á sjálfbærri og umhverfisvænni endurreisn,“ sagði Rósa Björk. mbl.is/Hari

Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, saknar þess að sjá umhverfisvænar aðgerðir í aðgerðapökkum ríkisstjórnarinnar sem miðast að því að lágmarka áhrif heimsfaraldurs kórónuveiru á íslenskan efnahag. Frumvörpum sem lúta að umhverfismálum hefur verið frestað vegna veirunnar. 

Rósa sagði á þingi í dag að ferðaþjónustan væri eins og sviðin jörð en nú væri tækifæri til að byggja hana upp að nýju með umhverfisvernd og og sjálfbærni að leiðarljósi. Hún lagði til að opinber stuðningur við fyrirtæki yrði skilyrtur við siðferðilega viðskiptahætti og sjálfbæran rekstur félagslega og umhverfislega.

Umhverfismál ættu að vera í forgrunni

„Áframhaldandi aðgerðir til að sporna við loftslagsbreytingum verða að vera stærri hluti af efnahagsuppbyggingunni,“ sagði Rósa. Slíkt hefur tíðkast í nágrannalöndum Íslands að hennar sögn.

„Ég verð að játa að ég sakna skýrari stefnu ríkisstjórnarinnar um græna efnahagsuppbyggingu sem byggir á sjálfbærri og umhverfisvænni endurreisn.“

Rósa benti á að frumvörpum sem snúa að umhverfismálum hafi verið frestað fram á haustið.

„Umhverfismálunum má ekki vera ýtt til hliðar vegna COVID-19 eða annars. Þvert á móti eiga þau að vera í forgrunni á svona tímum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert