„Meðan við glímum við efnahagskreppu, sem gæti orðið sú dýpsta í áratugi, er ekki hjálplegt eða líklegt til árangurs að stjórnmálamenn berist á banaspjót vegna hugsanlegra stjórnarskrárbreytinga, Evrópusambandsaðildar eða einhvers konar róttæktrar umbyltingar á þjóðfélagsgerðinni,“ skrifar Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, í grein í Morgunblaðinu í dag.
Inntak greinarinnar er í stuttu máli það að þrátt fyrir að það virðist vera birta til hvað varðar heilsufarslegar afleiðingar heimsfaraldurs kórónuveiru hér á landi þá erum við enn „í storminum miðjum“ hvað efnahagslegar afleiðingar varðar.
Þingmenn og ríkisstjórn geti ekki afstýrt gríðarlegum samdrætti í landsframleiðslu en verði að gera það sem í þeirra valdi stendur til að gæta þess að skaðinn verði ekki meiri en óhjákvæmilegt er og jafnframt að búa í haginn fyrir endurreisn og uppbyggingu að faraldrinum afstöðnum.
„Eins og dæmi eru um frá fyrri tíð gætu einhverjir freistast til að nýta ástandið og erfiðleikana til að ná einhverjum óskyldum pólitískum markmiðum. Slíkt ber auðvitað að varast, enda er það vísasti vegurinn til að tefja fyrir og trufla vinnuna við hin brýnu viðfangsefni sem við stöndum frammi fyrir á næstu vikum og mánuðum. Við skulum ekki gera okkur þau verkefni erfiðari en ella með því að kveikja aðra elda að óþörfu,“ skrifar Birgir.
Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, gerði grein Birgis að umræðuefni á Alþingi í dag undir liðnum störf þingsins og óskaði eftir því að eiga orðaskipti við Birgi, sem hann samþykkti. Hanna sagðist geta tekið undir margt sem kæmi fram í greininni en þó ekki allt.
Sagði hún að hvernig okkur muni farnast sem þjóð til lengri tíma, í breyttri heimsmynd eftir að hlutir komist aftur í fastar skorður, fari eftir því hvernig við tökumst á við núverandi stöðu.
Þótti henni undarleg sú skoðun Birgis að í ljósi núverandi stöðu ættu stjórnmálamenn ekki að ræða stjórnarskrárbreytingar, ekki Evrópusambandsaðild og ekki aðrar róttækar umbyltingar á þjóðfélagsgerðinni. Spurði hún hvenær tíminn til að ræða þessi hluti væri, ef ekki núna.
Birgir svaraði spurningu Hönnu á þá leið að þegar væri verið að bregðast við brýnum aðkallandi vanda væri mikilvægast að reyna að vinna sig út úr þeim vanda. Vandinn sem steðji að okkur núna hafi ekkert með stjórnarskrárbreytingar eða Evrópusambandsaðild að gera.
„Þess vegna held ég að deilur um þau efni á vettvangi stjórnmálanna, sem við vitum að koma upp ef menn reyna að keyra fram sína ýtrustu stefnu í þeim efnum, verði til þess að draga orku, tíma og athygli stjórnmálamanna frá þeim viðfangsefnum sem raunverulega eru brýn,“ sagði hann.
„Ég held að reynslan frá árunum 2009–2013 ætti að kenna okkur að við eigum ekki að eyða orkunni í deilur af því tagi þegar við getum verið að vinna að raunverulegum úrbótum, raunverulegum framfaramálum sem skila efnahagslegum bata fyrir þjóðfélagið,“ bætti hann við.
Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, kom í pontu á eftir Birgi og sagði hann vera að tala niður fundarboð forsætisráðherra um breytingar á stjórnarskránni. Það væri sérstakt að fylgjast með stjórnarflokkunum takast á um verkstjórnina.
Hún sagðist fagna því ef hægt væri að taka einhver skref áfram varðandi breytingar á stjórnarskránni. Birgir hefði aftur á móti barist gegn slíkum breytingum frá því að hann settist á þing.
Birgir bað næst um orðið undir liðnum um fundarstjórn forseta og fékk það. Hann sagði að ekki mætti skilja grein hans svo að hann gerði athugasemdir við að forsætisráðherra boði fund til að halda áfram vinnu sem hefur verið í gangi allt kjörtímabilið. Hann gerði greinarmun á því að halda þeirri vinnu áfram og því að einhverjir sjái færi til þess að nýta erfiðleikana til að koma í gegn breytingum sem hafa ekkert með ástandið að gera.