Ekki hægt að ræða við bæjarstjórann

Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, segir viðbúnað stéttarfélagsins heldur meiri núna …
Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, segir viðbúnað stéttarfélagsins heldur meiri núna en áður en hlé var gert á verkfallinu vegna kórónuveirufaraldursins. Sérstaklega í Kópavogsbæ. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Mér sýnist samantektin eftir daginn vera sú að það voru ekki nein skýr verkfallsbrot eða ásetningsbrot. En það var ákveðinn skortur á samvinnuvilja hjá Kópavogsbæ, sem var mjög miður,“ segir Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, í samtali við mbl.is.

Verkfallsvarsla Eflingar vegna ótímabundins verkfalls tæplega 300 starfsmanna í Kópavogsbæ, Seltjarnarnesbæ, Mosfellsbæ og sveitarfélaginu Ölfusi hófst í morgun en verkfallið sjálft hófst á hádegi í gær.

Ekki hægt að fá að ræða við bæjarstjórann

Sviðsstjóri Velferðarsviðs Kópavogs neitaði að svara spurningum verkfallsvarða Eflingar í dag og vísaði á upplýsingafulltrúa bæjarins eða Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóra Kópavogs. Grunur um eitt verkfallsbrot kom upp í Kópavogi í morgun.

„Eins og alkunna er þá er náttúrulega ekki hægt að fá að ræða við bæjarstjórann. En við fylgjum auðvitað öllu eftir og við erum líka að meðtaka ýmsar ábendingar og höldum áfram að skoða þetta allt saman,“ segir Viðar spurður að því hvort að svör hafi fengist frá upplýsingafulltrúa bæjarins eða bæjarstjóra.

Fylgjast betur með, sérstaklega í Kópavogi

Viðar segir ekki geta greint frá því á þessum tímapunkti hvaða ábendingar verið sé að skoða en segir að Efling hafi mætt betur undirbúin til leiks núna en þegar verkfallið hófst fyrir páska og viðbúnaður sé meiri.

„Við erum með miklu meiri viðbúnað núna í þessu heldur en við vorum með gagnvart sveitarfélögunum fyrir páska. Það var margt sem atvikaðist þá sem kom okkur á óvart og við höfum ákveðið að fylgjast miklu nánar og betur með, sérstaklega í Kópavogsbæ,“ segir hann.

Ekki hefur verið boðað til samningafundar í kjaradeilunni og Viðar tjáir sig ekki um það hvort viðræður milli samningsaðila hafi átt sér stað síðan fundi hjá Ríkissáttasemjara var slitið á mánudaginn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert