Sviðsstjóri Velferðarsviðs Kópavogs neitaði að svara spurningum verkfallsvarða Eflingar sem sinna nú verkfallsvörslu og vísaði á upplýsingafulltrúa bæjarins eða bæjarstjóra.
„Sviðsstjóri velferðarsviðs neitaði að svara spurningum okkar varðandi vinnustaðinn, til að mynda hversu margir Eflingarfélagar eru að vinna á staðnum, hvort allir séu í verkfalli eða hvort einhverjar undanþágur séu í gildi en hann neitaði að svara og sagði að ég þyrfti að hafa samband við almannatengil eða bæjarstjóra,“ segir Valgerður Árnadóttir, teymisstjóri félagssviðs hjá Eflingu, í samtali við mbl.is.
Verkfallsvarsla Eflingar vegna ótímabundins verkfalls tæplega 300 starfsmanna í fimm sveitarfélögum hófst í morgun en verkfallið hófst á hádegi í gær.
„Við fengum engin svör,“ segir Valgerður, en þeim var bent á að koma aftur eftir klukkutíma. „Við erum með fullskipaða dagskrá og það er ekki víst að við komumst,“ segir Valgerður. Hún býst ekki við svari frá upplýsingafulltrúa bæjarins eða bæjarstjóra. „Það er ekki tilgangur verkfallsvörslu að gera það. Fyrir utan það að bæjarstjóri Kópavogsbæjar hefur ekki svarað Eflingu síðustu fjögur skipti sem við höfum reynt að hafa samband við hann og ég efast að hann taki upp tólið núna,“ segir Valgerður.
Grunur er um eitt verkfallsbrot í Kópavogi þar sem af er degi en verkfallsvarslan hófst klukkan hálf ellefu í morgun og voru fyrstu viðkomustaðir grunn- og leikskólar í bænum. „Það var mikið um útikennslu sem var sagt að væri samkvæmt stundaskrá en við getum ekki vitað hvort stundarskrám hafi verið breytt vegna verkfallsins,“ segir Valgerður.
Þá hefur eitt verkfallsbrot Kópavogsbæjar verið staðfest síðan í verkfalli Eflingar áður en hlé var gert á aðgerðum vegna kórónuveirufaraldursins, en Valgerður segir að þar hafi félagsmaður Eflingar var beðinn að þrífa fundarherbergi fyrir bæjarstjórnarfund á meðan á verkfalli stóð. Bæjarfulltrúi Pírata varð vitni að þessu og staðfesti verkfallsbrotið og er það á borði lögmanna Eflingar.
Ekki hefur verið boðað til samningafundar í deilunni. Efling hefur sakað Samband íslenskra sveitarfélaga um að neita að gera kjarasamning við félagsmenn Eflingar sambærilegan þeim sem ríkið, Reykjavíkurborg og Faxaflóahafnir hafa gert við stéttarfélagið. Þá kom fram í tilkynningu frá Eflingu að Aldís Hafsteinsdóttir, formaður SÍS, hefði kallað eftir því að lög yrðu sett á verkfallsaðgerðir Eflingar.