Sígaretta á frægri mynd af Bubba Morthens var fjarlægð af öllu helsta markaðsefni vegna söngleiksins Níu lífa sem fjallar um ævi Bubba Morthens rétt fyrir frumsýningu í mars eftir að Borgarleikhúsinu bárust kvartanir vegna sígarettunnar.
Þetta staðfestir Pétur Rúnar Heimisson, markaðsstjóri Borgarleikhússins. Heimildir Morgunblaðsins herma að leikhúsinu hafi borist kæra vegna myndarinnar.
„Við fengum ábendingar frá mörgum og fórum í smá skoðun með þetta. Við litum fyrst á það þannig að við værum þarna að nota mynd sem væri heimild um Bubba Morthens og væri orðin fræg. Svo komu fram raddir um að sígarettan stuðlaði að reykingum. Að skoðuðu máli vildum við ekki fara á móti því forvarnarstarfi sem hefur verið unnið,“ segir Pétur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Spurður hvort ekki sé um ritskoðun að ræða segir hann: „Það er það sem við sögðum fyrst. Við vorum bara með íkoníska mynd af Bubba Morthens sem er heimild um hann. Ef maður fer í gegnum veggspjöld hjá leik- og kvikmyndahúsum um allan heim þá er mjög algengt að reykjandi fólk sé á þeim.“