Hjólastígur frá Lækjargötu út í Nauthólsvík

Hjólað úti á götu, en minna ætti að vera gert …
Hjólað úti á götu, en minna ætti að vera gert af því þegar fleiri hjólastígum verður til að dreifa. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Gera má ráð fyrir að einhvern tíma á næstu fjórum árum verði lagður hjólastígur eftir Lækjargötu, sem muni ná suður með Tjörn, meðfram Hljómskálagarði og inneftir Gömlu Hringbraut, þaðan yfir í Vatnsmýri og út í Nauthólsvík. Það sama gildir um góðan spöl á Bústaðarvegi.

Það er að minnsta kosti stefnt að þessu í forgangsröðun sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu um uppbyggingu stofnleiða 2020-2033. Á kortinu hér að neðan má sjá rauðmerktar þær leiðir sem áætlað er að geti gegnt hlutverki stofnleiða í hjólasamgöngum á höfuðborgarsvæðinu.

Forgangsröðun sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu um uppbyggingu stofnleiða 2020-2033.
Forgangsröðun sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu um uppbyggingu stofnleiða 2020-2033. Skjáskot/Efla

Til þess að þær geti gegnt þessu hlutverki er í flestum tilvikum miðað við að þar sé hjólastígur, hvort sem hann er ein- eða tvíbreiður. Það þýðir að á þessum rauðu köflum verði að líkindum lagðir hjólastígar á árunum 2020-2024.

Að sögn Elínar Rítu Sveinbjörnsdóttur, eins höfunda minnisblaðs verkfræðistofunnar Eflu um skipulagið, eru margir kaflar í námunda við Borgarlínuna fyrirhuguðu, enda eigi samhliða henni að vera góðar hjólasamgöngur. Fjárfesting í uppbyggingu samvinnuinnviða, þar með talinni Borgarlínu, mun nema 120 milljörðum króna fram til 2033, þar af 8,2 milljörðum í göngu- og hjólastíga.

25 km/klst viðmið er á sameiginlegum stígum

Leitast verður við að byggja upp hjólastíga þar sem umferðartalning gefur tilefni til og þar með að tryggja að meðfram stofnleiðunum svonefndu verði hægt að hjóla í flestum veðrum.

„Þetta verður ekki endilega alltaf sérstakur tvístefnustígur en við miðum við það þar sem þeir komast fyrir. Það sem verður hins vegar gert er að þessar leiðir verði í forgangi í snjómokstri á veturna, þannig að hægt sé að hjóla þær allan ársins hring og þannig ýta undir samgönguhjólreiðar,“ segir Elín.

Allur gangur er á göngustígunum, hvort þeir séu einvörðungu fyrir …
Allur gangur er á göngustígunum, hvort þeir séu einvörðungu fyrir gangandi vegfarendur eða hjólreiðafólk. Á Ægissíðunni er á kafla sitt hvor vegurinn, en mest blandað. mbl.is/Kristinn Magnússon

Víða er bæði gangandi umferð og hjólandi umferð á sama stíg á þeim svæðum sem áætlað er að verði hluti af stofnleið í þessum samgöngum, en Elín segir að leitast verði í auknum mæli við að aðgreina hjólastíga frá göngustígum. „Í dag er 25 km/klst viðmið á sameiginlegum stígum og hjólandi eru í raun gestir á stígunum skv. núgildandi umferðarlögum, þannig að með því að aðskilja stígana erum við að bæta umferðaröryggi og um leið í raun skila göngustígunum til gangandi vegfarenda,“ segir Elín.

Eflu var falið að teikna upp framtíðarsýn á uppbyggingu stofnleiða með samstarfshópi frá samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Vegagerðinni. Nú er það í höndum sveitarfélaganna og Vegagerðarinnar að hrinda áformunum í framkvæmd.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert