Héraðsdómur Reykjaness hefur sakfellt konu fyrir líkamsárás í opinberu starfi og brot gegn barnaverndarlögum með því að hafa veist að fimm ára gömlum dreng á leikskóla, þar sem hún starfaði sem þroskaþjálfi. Dómurinn féll 3. apríl en var birtur á vef dómstólsins í dag.
Konunni er ekki gerð refsing með vísan til 16. gr. almennra hegningarlaga en henni gert að greiða allan sakarkostnað. Þá var ákærðu jafnframt gert að greiða brotaþola miskabætur.
Konan hafði unnið sem þroskaþjálfi á leikskólanum í 13 ár þegar brotin áttu sér stað og hafði veitt drengnum sérkennslu og stuðning á þriðja ár. Leikskólastjóri tilkynnti brotin til barnaverndar í febrúar 2018. Þar kom fram að vegna fötlunar sinnar gæti drengurinn ekki tjáð sig um málsatvik.
Um er að ræða tvö aðskilin brot. Í tilkynningu til barnaverndar segir m.a. að drengurinn hefði verið að borða þegar hann sló til konunnar, sem sat hliðina á honum. Þegar hann hélt áfram að baða út handleggjunum í átt að henni brást hún við með því að „grípa í hönd hans og í framhaldi af því sló hún hann með flötum lófa á kinnina þannig að það small í.“ Hitt atvikið átti sér einnig stað á matmálstíma í leikskólanum en þá missti konan stjórn á sér við matarborðið, að því er segir í tilkynningu til barnaverndarnefndar. Konan stóð snöggleg upp, greip um hendur drengsins, krosslagði hendur hans og bölvaði og ragnaði. Drengurinn grét sárt eftir atvikið.
Konan viðurkenndi að hafa átt slæman dag og að hún hefði misst stjórn ár sér, hafi gengið of langt og að hún sæi eftir gjörðum sínum.
Barnavernd fór fram á lögreglurannsókn sem hófst í mars 2018. Konan viðurkenndi við skýrslutöku að hafa slegið drenginn. Konunni var ekki gerð refsing og var það mat sérfræðings í geð- og embættislækningum að hún hafi í raun ekki verið vinnufær vegna streitu og kvíða og hafi sennilega ekki verið það frá sumri eða hausti 2017.
Ástand hennar hafi verið litað af áfallastreitu og almennri kvíðaröskun og einkennum endurtekins þunglyndis. „Ljóst sé að þrátt fyrir það skilji hún vel að ofbeldi gagnvart börnum sé ólíðandi og refsivert. Sú upplifun að verða dæmd til refsingar fyrir slíkt verk sé til þess fallin að gera veikindi ákærðu verri og yrði henni þungbært áfall,“ segir í dómnum.
Þar segir jafnframt að vegna fötlunar brotaþola nýtur ekki lýsinga hans á því hver upplifun hans var af brotum konunnar. „Hitt er ljóst að háttsemi ákærðu sem faglærðs umönnunaraðila brotaþola, er var algerlega upp á hana kominn, á stað þar sem brotaþoli átti að njóta öryggis, var alvarleg og til þess fallin að valda drengnum sálrænum erfiðleikum.“
Konunni er því gert að greiða drengnum miskabætur, alls 400 þúsund krónur. Hún er sömuleiðis dæmd til að greiða sakarkostnað málsins, alls 485 þúsund krónur, sem og þóknun verjanda síns og réttargæslumanns drengsins, samtals um 1,5 milljón króna.