Elliði Vignisson bæjarstjóri í Ölfusi er með 1.793.644 krónur í laun á mánuði, samkvæmt launaseðli sem hann birti á Facebook í gær.
Seðilinn birti hann til þess að leiðrétta það sem haldið hafði verið fram undir yfirskriftinni „Milljónasjallarnir sem vilja ekki að láglaunafólk fái laun sem duga fyrir lífinu“ á Facebook-síðunni Jæja.
Þar var Elliði sagður hafa 2,26 milljónir í mánaðarlaun fyrir störf sín sem bæjarstjóri en í raun réttri er hann með 466.356 krónum minna.
„Ég, eins og kollegar mínir um allt land, er með góð laun og fel það ekki. Þess vegna hef ég tryggt að upplýsingar um þau séu ætíð aðgengileg á vefsíðu sveitarfélagsins. Mér þykir það því furðulegt að í umfjöllun um sanngjörn laun skuli það þykja sanngjarnt að ýkja laun mín sem bæjarstjóra um hátt í hálfa milljón,“ skrifar Elliði.
Elliði bætir við að að það hljóti að vera erfitt að semja „ef þetta er dæmi um það sem almennt er á ferðinni í þessum viðræðum.“ Með „þessum viðræðum“ á hann við yfirstandandi kjaraviðræður á milli Eflingar og Sambands íslenskra sveitarfélaga um samninga til dæmis starfsfólks í grunnskólum.
Í þeim viðræðum hefur Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og bæjarstjóri í Hveragerði fyrir Sjálfstæðisflokkinn, stigið fram og sagt það forkastanlegt að „lítill hópur starfsmanna sveitarfélaga ætli að misnota aðstöðu sína“ með því að fara í verkfall.
Aldís er einnig á myndinni hjá Jæja og er sögð vera með 1,8 milljónir á mánuði í laun. Ekki er gefið upp hvaðan sú tala er tekin, en hún er sögð miðuð við árið 2019.