Fyrirtæki með stjórnendur á „ofurlaunum“ fái ekki aðstoð

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra Eggert Jóhannesson

Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra segist munu setja launaviðmið inn í skilyrði fyrir stuðningi ríkissjóðs við fyrirtæki í hlutabótaleiðinni.

„Mér finnst ekki eðlilegt að fyrirtæki sem eru að biðja um fjármagn til að standa við skuldbindingar sínar gagnvart launafólki, að forsvarsmenn þar séu enn þá með ofurlaun,“ sagði Ásmundur í Silfrinu á RÚV í morgun.

Hann hefur lýst vonbrigðum sínum með framferði stöndugra fyrirtækja sem hafa sótt fé í ríkissjóð og á sama tíma greitt sér arð. „Ef það er eitthvað sem ég hef sannfærst um er það að við getum ekki treyst því að innan atvinnulífsins sé sú rödd skýr að við séum öll í sama bátnum í þessu,“ sagði Ásmundur en bætti við að vitaskuld væri líka fjöldi fyrirtækja sem færi fram með sanngjörnum hætti.

Forsendubrestur

Ásmundur sagði slæmt ef stjórnmálamenn gætu ekki höfðað til siðferðiskenndar stórra fyrirtækja á tímum sem þessum. „Þessi stærri fyrirtæki sem telja það eðlilegt að greiða sér arð á sama tíma og þeir eru með munninn undir ríkiskrananum, ef stjórnmálamenn geta ekki rætt við atvinnulífið um að þetta sé ekki eðlilegt er orðinn ákveðinn forsendubrestur í samtali stjórnvalda við atvinnulífið,“ sagði Ásmundur.

Unnið er að því að endurskoða skilyrðin fyrir aðstoð stjórnvalda við fyrirtæki í hlutabótaleiðinni og segir Ásmundur að þau endurskoðuðu skilyrði muni leiða til þess að töluvert færri fyrirtæki muni geta nýtt sér leiðina.

„Það þurfa að vera gríðarlega ströng skilyrði til að menn fái opinbert fjármagn,“ sagði Ásmundur, og bætti við að ásamt því til dæmis að stjórnendur séu ekki á ofurlaunum þurfi ríkisaðstoð við stór fyrirtæki einnig að fela í sér endurgreiðslukröfu.

Hægt að fara inn í bókhald fyrirtækja

Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna, sagði þá að yfirvöld myndu sækja þá fjármuni til fyrirtækja „sem hafa að ósekju nælt sér í þá“ í gegnum hlutabótaleiðina. Ýmsar leiðir séu færar til að fara „inn í bókhald fyrirtækja“.

Kolbeinn Óttarsson Proppé
Kolbeinn Óttarsson Proppé mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hlutabótaleiðin hafi þó ekki mistekist þó að einhverjir hafi sótt sér fé án þess að þurfa það. „Hlutabótaleiðin var fyrir starfsfólkið, en ekki fyrirtækin. Það var fólk sem vinnur hjá siðlegri fyrirtækjum sem fékk þennan stuðning við framfærslu en síðan er líka fólkið sem vinnur hjá vondu kapítalistunum. Það fólk þarf líka sína framfærslu.“

„Það fólk ætti ekki að þurfa að líða fyrir það að eigendurnir séu ekki merkilegri manneskjur en þetta,“ sagði Kolbeinn í Silfrinu á RÚV og vísaði þar til þess að stöndug fyrirtæki sem ekki voru í fjárhagsvanda skráðu starfsfólk sitt samt í hlutabótaleiðina.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert