Rangt að bera Icelandair saman við lággjaldafélög

Jón Þór Þorvaldsson.
Jón Þór Þorvaldsson. mbl.is/​Hari

Jón Þór Þorvaldsson, formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna, segir það ekki rétt að bera Icelandair saman við lággjaldaflugfélög í tengslum við kjaramál félagsmanna.

Haft var eftir ráðgjafa eins af stóru hluthöfum Icelandair í Morgunblaðinu að flugmenn og flugfreyjur þurfi að taka á sig launalækkun á bilinu 50 til 60% til að forða flugfélaginu frá gjaldþroti. Félagið horfi nú fram á samkeppni við flugfélög á borð við WizzAir, Ryan Air og Easy Jet.

Jón Þór sagði í samtali við Morgunútvarp Rásar 2 að það að bera saman við Icelandair flugfélög sem eru búin að stilla sér upp á allt öðrum stað á markaði væri einfaldlega rangt. Hann sagði rekstrarmódel lággjaldaflugfélaga ekki það sama og hjá Icelandair.

„Fyrirsvarsmenn Icelandair hafa ekki nefnt þessar tölur en það eru menn sem vilja róta þessu upp,“ sagði Jón Þór og bætti við að laun flugmanna Icelandair séu lægri en hjá Easy Jet.

Flugmenn hafa boðið samninganefnd Icelandair tilboð um nýjan kjarasamning við flugmenn sem felur í sér 25% hagræðingu og kostnaðarlækkun fyrir félagið.

Jón Þór sagði öll flugfélög í heiminum verða tæknilega gjaldþrota ef ástandinu vegna kórónuveirunnar linnir ekki. „Við finnum til ábyrgðar. Við ætlum að taka slaginn með okkar félagi,“ sagði hann.

Spurður nánar út í boð samninganefndar um 25% eftirgjöf í kjörum sagði Jón Þór að flugmenn bjóðist til að vinna meira fyrir lægri laun og gefa eftir orlof og áunnin réttindi á borð við helgarfrí.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert