Forsætisráðherra hefur birt drög að stjórnarskrárákvæði um stöðu íslenskunnar sem opinbers tungumáls á Íslandi, í samráðsgátt stjórnvalda. Í ákvæðinu segir að íslenska sé ríkismál í landinu og að ríkið skuli styðja íslensku og vernda — sama orðalag og þegar er notað um þjóðkirkjuna. Sömuleiðis er kveðið á um að íslenskt táknmál sé tungumál þeirra sem þurfa að reiða sig á það.
Í stjórnarskránni, eins og hún er nú, er ekkert vikið að stöðu íslenskunnar sem opinbers máls. Ýmsar lagabreytingar og þingsályktanir um stöðu íslensku hafa þó verið samþykktar undanfarin ár, þeirra helst lög um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls frá 2011 þar sem íslenska var gerð að opinberu tungumáli landsins.
Frumvarpið, sem nú er í samráðsgátt, er afrakstur viðræðna formanna allra flokka á Alþingi um breytingar á stjórnarskrá. Þegar hafa verið lögð fram ákvæði um auðlindagjald og umhverfisvernd.