Hafin er söfnun blóðsýna hér á landi til að meta útbreiðslu mótefna gegn SARS-CoV-2, kórónuveirunnar sem veldur sjúkdómnum Covid-19. Aðeins er safnað blóðsýnum frá einstaklingum sem koma í blóðrannsóknir af öðrum ástæðum sem stendur og ekki er verið að safna sýnum frá einstaklingum sem hafa ekki aðra ástæðu til blóðtöku á þessu stigi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá sóttvarnalækni og birt er á heimasíðu landlæknis.
Sýkla- og veirufræðideild Landspítala er byrjuð að mæla mótefni gegn veirunni og er farin að taka á móti blóðsýnum, en beiðni þarf þá að koma frá lækni.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði í síðustu viku að tilgangur söfnunarinnar væri að fá góða mynd af því hversu stór hluti þjóðarinnar hafi sýkst á undanförnum vikum.
Sagði hann þá að ekki væri um eiginlega vísindarannsókn að ræða heldur könnun á vegum sóttvarnalæknis sem muni hafa þýðingu við að ákvarða sóttvarnaráðstafanir í samfélaginu á næstu vikum og mánuðum.