„Við munum fara hægt af stað“

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir á blaðamannafundi …
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ytri aðstæður munu hafa áhrif á fjölda ferðamanna hér á landi í sumar. Íslendingar verða áfram hvattir til þess að ferðast innanlands, enda er ljóst að afkastageta íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja verður ekki nýtt að fullu af erlendum ferðamönnum, segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála- og nýsköpunarráðherra. 

Ríkisstjórnin ákvað í morgun að stefna að því að eigi síðar en 15. júní geti þeir sem koma til landsins farið í skimun fyrir kórónuveirunni á Keflavíkurflugvelli. Reynist sýnataka neikvæð þarf viðkomandi þá ekki að fara í 2 vikna sóttkví. Þá er einnig gert ráð fyrir að nýleg vottorð um sýnatöku erlendis verði einnig tekin til greina meti sóttvarnalæknir þau áreiðanleg. 

Þórdís Kolbrún segist vona að þessi ákvörðun skýri stöðu ferðaþjónustufyrirtækja betur. Það sé þó ljóst að sumarið muni fara hægt af stað í ferðaþjónustunni. 

„Ég held að við munum fara frekar hægt af stað. Þrátt fyrir að við séum núna að miða við 15. júní eigum við eftir að sjá hversu hratt önnur lönd og íbúar þeirra taka við sér,“ segir Þórdís.

„Það á örugglega margt eftir að gerast þangað til, hvernig veiran mun þróast og hvaða ákvarðanir önnur lönd taka. Það skiptir auðvitað mjög miklu máli að vera komin með þessa dagsetningu svo atvinnugreinin geti miðað við hana og gert áætlanir. Síðan verðum við að sjá hvernig þessar ytri aðstæður, hvaða áhrif þær hafa hér.“

Þórdís Kolbrún segir að Íslendingar verði áfram hvattir til þess að ferðast innanlands í sumar. 

„Sumarið verður auðvitað þannig að ferðamenn munu ekki nýta þessa afkastagetu sem er innan greinarinnar. Vonandi munu Íslendingar nýta sumarið og þennan skrítna tíma til að skoða og njóta landsins. Við vitum líka að ferðir til útlanda verða í miklu minni mæli, þannig að þau plön eru alveg á áætlun.“

Þórdís segist gera ráð fyrir því að fyrirtæki í ferðaþjónustunni muni áfram nýta sér úrræði stjórnvalda. 

„Við vitum ekki alveg hvaða fyrirtæki munu til að mynda hafa opið í sumar. Það er auðvitað erfitt að gera áætlanir inn í sumarið, jafnvel þó að við höfum tekið þessa ákvörðun um opnun 15. júní, vegna þess að það er engin leið að vita hversu margir komi hingað. Síðan eru fyrirtæki auðvitað í mismunandi stöðu, og sum kannski í þannig aðstæðum að það sé allt gert til að nýta þau úrræði sem við höfum verið að vinna að.“

Þá segir Þórdís að koma verði í ljós hvernig staða flugsamgangna verður í sumar, en mikið hefur verið rætt um stöðu Icelandair að undanförnu. 

„Við þurfum að taka stöðuna á því. Auðvitað geta svona fréttir haft áhrif á flugfélög. Svo er auðvitað ofboðslegur fjöldi flugfélaga í erfiðri stöðu rekstrarlega svo við vitum ekki hvernig það þróast heldur.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert