Kjörvextir viðskiptabankanna, sem flest lítil og meðalstór fyrirtæki greiða af lánum sem tekin eru hjá bönkunum, hafa farið lækkandi á síðustu misserum. Þegar lækkunarferill þeirra er hins vegar borinn saman við stýrivaxtalækkanir Seðlabanka Íslands kemur í ljós að bankarnir hafa dregið lappirnar við lækkun vaxta.
Frá því um mitt síðasta ár hefur peningastefnunefnd Seðlabankans ítrekað lækkað vexti og nemur uppsöfnuð lækkun nú 2,75 prósentum. Á sama tíma hafa óverðtryggðir kjörvextir Arion banka lækkað um 1,65 prósentur en hjá Íslandsbanka nemur lækkunin aðeins 1,2 prósentum. Landsbankinn hefur hins vegar lækkað um 1,65 prósentur á þessum tíma.
Áhrif vaxtalækkana Seðlabankans koma betur fram í vaxtakjörum stærri fyrirtækja en í flestum tilvikum eru kjör þeirra tengd þróun svokallaðra REIBOR-vaxta sem ákvarðast á markaði. Hafa þeir þróast í eðlilegum takti við ákvarðanir peningastefnunefndarinnar.
Kjörvextirnir sem slíkir segja þó ekki alla söguna því þeir mynda vaxtagólfið hjá bönkunum. Ofan á þá leggst svo álag sem bankarnir ákvarða og er misjafnt milli fyrirtækja og atvinnugreina, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Uppfært: Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar var sagt að kjörvextir Landsbankans hefðu lækkað um 1,55 prósentur yfir fyrrgreint tímabil. Hið rétta er að lækkun bankans nemur 1,65 prósentum eða 0,1 prósentu meira en fullyrt var.