„Þurfum að vera auðmjúk gagnvart þessari stöðu“

Lilja og Ásmundur á kynningarfundinum í dag.
Lilja og Ásmundur á kynningarfundinum í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Menntamálaráðherra og félags- og barnamálaráðherra vilja reyna til hins ýtrasta að skapa sumarstörf og önnur úrræði fyrir námsmenn áður en gripið verður til annarra aðgerða eins og atvinnuleysisbóta. 

Lilja Al­freðsdótt­ir mennta­málaráðherra og Ásmund­ur Ein­ar Daðason fé­lags- og barna­málaráðherra kynntu í dag áform stjórn­valda um að skapa að minnsta kosti 3.400 sum­arstörf fyr­ir náms­menn 18 ára og eldri. 

Í samtali við mbl.is segist Ásmundur ekki tilbúinn til þess að gefast upp á því verkefni að skapa nægilega mörg störf fyrir stúdenta í sumar, en könnun Stúdentaráðs Háskóla Íslands frá því í apríl benti til þess að um 7.000 stúdentar væru ekki komnir með sumarstarf. 

„Það lítur þannig út að störfin sem við erum að skapa verði fleiri en við gerðum ráð fyrir í upphafi. Hugsunin er sú að við munum áfram getað skapað fleiri störf. Við viljum ekki gefast upp á því fyrir fram. Verkefnið er að vinna hratt og vel í því. Ég hef þá trú að okkur takist að skapa störf og önnur úrræði þannig að ekki þurfi að koma til atvinnuleysisbóta eða annarrar sérstakrar framfærslu,“ segir Ásmundur.

Ásmundur segir að stjórnvöld muni skoða og tryggja önnur úrræði ef ekki tekst að skapa nægilega mörg sumarstörf, til þess að koma til móts við þá stúdenta sem lenda á milli skips og bryggju.

„Það er auðvitað þannig að samfélagið okkar á að tryggja öryggisnet fyrir alla sína borgara. Ég vil hins vegar ekki gefast upp á því verkefni að skapa fleiri störf fyrir fram. Við erum auðvitað að vinna á mjög kröppum tíma og taka hérna átak sem er 10 ára gamalt sem við erum þegar búin að fjórfalda. Það er mjög líklegt að við náum að fimm, sex eða sjöfalda það,“ segir Ásmundur.  

„Ég vil ekki gefast upp á því verkefni því við eigum fyrst og síðast að skapa störf og það gafst vel á árunum eftir efnahagshrunið og það lítur þannig út að þetta muni gefast mjög vel núna líka, allavega miðað við hvernig þetta fer af stað. En tíminn er knappur og við erum að reyna að hlaupa í kappi við hann. Verkefnið er að skapa öllum námsmönnum störf eða úrræði og ég mun ekki gefast upp fyrir því fyrir fram án þess að hafa látið reyna á það til hins ýtrasta.“

Rétt til atvinnuleysisbóta þurfi að skoða almennt

Lilja tekur í sama streng og Ásmundur og segir það markmið stjórnvalda að ná að virkja sem flesta námsmenn í sumar. 

„Við stefnum að því að virkja sem flesta námsmenn í sumar. Við gerum það annars vegar með sumarnámi og hins vegar með gríðarlegri aukningu á sumarstörfum sem hið opinbera kemur að. Ég tel að þessar aðgerðir séu til þess fallnar að virkja þúsundir námsmanna.“

Í samtali við mbl.is fyrr í dag sögðu fulltrúar stúdentahreyfingarinnar að það felist óréttlæti í því að námsmenn greiði af launum sínum tryggingagjald en eigi síðan ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Lilja segir að þetta sé í skoðun hjá stjórnvöldum. 

„Það er auðvitað ýmislegt sem tengist réttinum er varðar þá sem hafa verið að greiða tryggingagjöld. Stjórnvöld eru að skoða það og við höfum átt í farsælu og árangursríku samstarfi við stúdenta og þetta er eitt af því sem við erum að skoða, þennan rétt og þá almennt,“ segir Lilja.  

„Við erum að skoða alla þætti þessar stóru samfélagslegu áskorunar sem við stöndum nú frammi fyrir, því að atvinnuleysi hefur aukist. Við skoðum alla þá þætti sem geta mögulega aðstoðað fólkið okkar.“ 

Lilja segir það ekki útilokað að önnur úrræði verði skoðuð í framhaldinu, náist ekki að tryggja úrræði fyrir alla námsmenn í sumar. 

„Við byrjum á þessu og svo sjáum við hvað setur. Við erum að gera þetta skipulega, eitt skref í einu, og svo sjáum við hver staðan er. Við þurfum að vera auðmjúk gagnvart þessari stöðu og endurskoða hana reglulega. Það vilja allir vera virkir og við leggjum áherslu á slík úrræði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert