Uppákoma varð á fundi borgarráðs í gær, þegar Vigdís Hauksdóttir borgarfulltrúi Miðflokksins gerði aftur athugasemd við að Helga Björg Ragnarsdóttir, skrifstofustjóri borgarstjóra, væri viðstödd fund sem henni sjálfri, Vigdísi, væri skylt að vera viðstödd. Meirihlutinn sagði viðveru Helgu Bjargar ekki koma Vigdísi við og að athugasemdir hennar væru framhald á árásum hennar á starfsfólk borgarinnar.
„Það er valdníðsla af formanni borgarráðs, Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur, að hleypa skrifstofustjóra borgarstjóra inn á fundi þar sem ég, réttkjörinn borgarfulltrúi Miðflokksins, hef skyldusetu samkvæmt lögum,“ segir í bókun Vigdísar frá fundinum, sem sjá má í fundargerðinni.
Ósætti á milli Vigdísar og Helgu á sér langa sögu. Helga hefur ásakað Vigdísi um svo gróft einelti að hún hafi hlotið heilsutjón af. Vigdísi hafa borist þrjú ábyrgðarbréf heim þar sem hún er borin þessum sökum, sem hún segir þó ekki geta verið sannar. Hún hafi aðeins hitt Helgu þrisvar á fundum þegar ásakanirnar komu fram.
Þegar Vigdís kvartaði undan því í gær að Helga Björg væri að mæta á fundinn, sem hún gerði í gegnum fjarfundabúnað, svöruðu fulltrúar meirihlutans með gagnbókun:
„Skrifstofustjórum með mál fyrir borgarráði er skylt að fylgja málum sínum eftir sem hefur ekkert með borgarfulltrúa Miðflokksins að gera. Áfram heldur borgarfulltrúinn árásum sínum á starfsfólk sem hann er orðinn þekktur fyrir bæði hjá ríki og borg. Hefði verið betra að borgarfulltrúinn sinnti skyldu sinni og stæði vörð um hag Reykjavíkurborgar frekar en að vinna að því að grafa undan innviðum borgarinnar.“
Vigdís svaraði því þá að meirihlutanum væri ómögulegt að skilja þá lagagrein sveitastjórnarlaga sem kvæði á um að sveitastjórnarmönnum bæri að sitja alla nefndarfundi. Hún þyrfti samkvæmt þeim að vera á fundinum og í ljósi þess væri ótækt að hafa Helgu Björg á fundinum einnig, sem Vigdísi eigi að hafa lagt í einelti.
Því myndi Vigdís áfram snúa í Helgu baki, eins og hún hefur boðað að sé ætlun hennar framvegis. „Ég ætla ekki að valda þessari konu meira heilsutjóni,” sagði Vigdís við mbl.is í apríl um þá ákvörðun.
Um ofangreindar ásakanir meirihlutans um árásir Vigdísar á starfsmenn borgarinnar segir hún: „Ég vísa ásökunum þeim sem finna má í gagnbókun meirihlutans á bug, sem er í senn upplýsandi og afhjúpandi fyrir það vinnu umhverfi sem mér er búið í Ráðhúsinu – sífellt áreiti og ásakanir til að grafa undan trúverðugleika mínum. Ég stend sterkari fyrir vikið.“