FFÍ og Icelandair hittast á óformlegum fundum

Fyrirhuguð fjárhagsleg endurskipulagning Icelandair stendur nú og fellur með því …
Fyrirhuguð fjárhagsleg endurskipulagning Icelandair stendur nú og fellur með því að flugfélagið nái að semja við Flugfreyjufélag Íslands fyrir hluthafafund sem fer fram 22. maí. Ljósmynd/Aðsend

Samninganefndir Flugfreyjufélags Íslands og Icelandair munu hittast á óformlegum vinnufundi klukkan 11 í dag í húsakynnum ríkissáttasemjara. Ekki er um formlegan sáttafund að ræða heldur vettvang fyrir minni vinnuhópa til að koma saman og finna sameiginlega fleti.

Heimildir mbl.is herma að slíkir minni vinnufundir muni fara fram í allan dag og á fleiri stöðum en í Karphúsinu. Síðasti sáttafundur samninganefnda FFÍ og Icelandair fór fram á miðvikudaginn 13. maí og lauk honum án árangurs.

Í kjölfarið sendi Icelandair frá sér tilkynningu þar sem kom fram að þau tilboð sem lögð höfðu verið fram að hálfu félagsins hefðu verið til þess fallin að auka samkeppnishæfni Icelandair og verja ráðstöfunartekjur starfsmanna á sama tíma.

Flugfreyjur lögðu fram sitt eigið tilboð en fengu þau svör að samninganefnd Icelandair sæi sér ekki fært að ræða við samninganefnd FFÍ á þeim grundvelli sem tilboðið var lagt fram á.

Kvartað yfir bréfaskrifum Boga

Þá fór Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, fram hjá samninganefnd FFÍ og sendi félagsmönnum tölvupóst sem innihélt tilboð Icelandair ásamt skýringum og kynningarbæklingi og hvatti þær til að kynna sér gögnin vel. 

Forsvarsmenn FFÍ brugðust ókvæða við og sökuðu Boga um að grípa með alvarlegum hætti inn í yfirstandandi kjaraviðræður. Þá var Icelandair sakað um að ganga á bak orða sinna. ASÍ gerði alvarlegar athugasemdir við bréf Boga og sendi kvörtun til bæði Samtaka atvinnulífsins og ríkissáttasemjara. Bogi sagðist í viðtali við mbl.is ekki telja að loforð hefðu verið svikin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert