Getum ekki verið eins og íslenski hesturinn

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra og Ásmundur …
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra og Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, á blaðamannafundi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamálaráðherra segir það ásættanlega áhættu að opna landið aftur fyrir ferðamönnum.

„Við getum ekki verið hér eins og íslenski hesturinn. Hann er bara varinn hér og engir aðrir mega koma af því að hann hefur verið einangraður svo lengi. Við munum þurfa að opna og við vitum það,“ sagði Þórdís Kolbrún í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni.

Hún sagði ekki hægt að vera með sterkt atvinnulíf hérlendis á meðan landið er lokað og nefndi að Íslendingar væru mjög háðir því að vera með opið hagkerfi og opin landamæri til að hægt sé að taka á móti fólki. Hún bætti við að stjórnvöld þurfi að fikra sig áfram til að finna réttu leiðirnar.

„Við erum ekki að gefa út að við ætlum að skima alla sem koma til landsins næstu 24 mánuði,“ sagði hún en nefndi að það geti vel verið að það verði gert tímabundið og séð hver reynslan verður af því.

Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Flugstöð Leifs Eiríkssonar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kom til greina að veita ríkisábyrgð

Til álita kom hjá ríkisstjórinni að veita ríkisábyrgð vegna pakkaferða til útlanda sem hætt hefur verið við vegna kórónuveirunnar og fólk hefur ekki fengið endurgreiddar.

„En við erum ekki að leggja það til,“ sagði Þórdís Kolbrún. Hún sagðist átta sig á því að óvissan fyrir neytendur og fyrirtæki sé óþægileg.

Ég var ekki að leggja fram frumvarpið til að auka enn frekar neytendavernd,“ sagði hún og nefndi að ef allar ferðaskrifstofur þyrftu að endurgreiða allt á einu bretti yrðu margar þeirra gjaldþrota.

Hún sagði að hlustað verði á gagnrýni og það kunni að vera að það sé óraunhæft að leggja málið fram með þessum hætti. Hún bætti við að ekki sé hægt að gera hlutina eins og Danir sem eru með sameiginlegan sjóð sem öll fyrirtæki greiða í. „Auðvitað kom til álita að veita ríkisábyrgð á allt saman en við erum ekki að leggja það til.“

Flugvélar Icelandair.
Flugvélar Icelandair. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alvarleg staða Icelandair

Spurð út í Icelandair sagði hún stöðu flugfélagsins alvarlega og að það yrði mikið áfall ef hlutirnir gengju ekki eftir þar. Hún sagði að ríkisvaldið gæti mögulega stigið inn í á margan annan hátt en að taka félagið í fangið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert