Jóna Þórey Pétursdóttir, fráfarandi forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands, segir stöðu stúdenta hér á landi grafalvarlega. Um sjö þúsund háskólanemar sjái fram á að vera án atvinnu í sumar og ljóst að 3.400 störf sem stjórnvöld hafa boðað fyrir háskólanema og framhaldsskólanema dugi skammt til að leysa þann vanda. Jóna var gestur Silfursins á RÚV í hádeginu.
Tölurnar byggir Stúdentaráð á könnunum meðal námsmanna í apríl, en þar kom fram að um 40% nema við Háskóla Íslands hefðu ekki fengið sumarstarf. Í Háskólanum í Reykjavík var hlutfallið 50% og í Listaháskólanum 65%. „Þessir hópar teknir saman eru 7.000 námsmenn,“ sagði Jóna og bætti við að þá væru ótaldir framhaldsskólanemar sem náð hafa 18 ára aldri, en sumarstörf stjórnvalda eiga einnig að ná til þeirra.
„Við höfum talað fyrir því að atvinnuskapandi aðgerðir þurfi að koma til samhliða því að við tryggjum fjárhagsöryggi þessa hóps, af því að störfin munu aldrei grípa alla,“ sagði Jóna. Um 70% stúdenta vinna jafnan með skóla og á sumrin er hlutfall vinnandi stúdenta 90%.
Jóna benti á að af launum námsmanna sé greitt tryggingagjald, eins og af launum annarra, en því gjaldi er meðal annars ætlað að standa undir atvinnuleysisbótum. Því skyti skökku við að námsmenn eigi engan rétt á greiðslum úr sjóðnum hafi þeir misst vinnuna.
Námsmenn áttu rétt á atvinnuleysisbótum fram til ársins 2010, en þá var rétturinn afnuminn undir þeim formerkjum að aðskilja bæri námslánakerfi stúdenta og atvinnuleysistryggingakerfið. „Það hefur misheppnast hrapalega að aðskilja þessi kerfi og gera það að verkum að námsmenn þurfi ekki að treysta á atvinnuleysisbótakerfið. Þegar það er sagt að það eigi að aðskilja námsmenn frá atvinnuleysisbótakerfinu þá er það auðvitað líka þannig að námsmenn eru bara vinnandi fólk. Við erum hluti af vinnuafli þessa lands,“ sagði Jóna.
Þá óttast Stúdentaráð að kostnaðurinn við framfærslu námsmanna muni á endanum lenda á velferðarkerfinu eða félagslegri aðstoð sveitarfélaga. „Það er líklegast að milljarðar muni lenda á sveitarfélögunum, sem eru þegar í viðkvæmri stöðu,“ sagði Jóna og bætti við að ekki væri réttlátt að varpa ábyrgðinni á þau. „Ríkið á að grípa inn í, enda er peningurinn af launum þessa fólks [þ.e. tryggingagjald af launum námsmanna] búinn að lenda þar.“
Jóna sagði nauðsynlegt að bregðast hratt við enda væri sumarið þegar gengið í garð. „Neyðin er núna, hún er komin. Það þarf að bregðast við núna.“