„Við erum að berjast í þessu enn þá. Þetta er mjög slæmt að eiga við,“ segir Bjarni Þorsteinsson, slökkviliðsstjóri Borgarbyggðar. Slökkviliðsmenn frá Akranes og Reykjanesbæ hafa verið kallaðir til aðstoðar vegna gróðurelds í Borgarfirði en gert er ráð fyrir slökkvistarfi fram á nótt.
Bjarni segir að um sé að ræða leiðindavinnu en talsverður eldur logar í gróðri og mosa við Norðurá, rétt við fossinn Glanna. Slökkviliðsmönnum hafi tekist að hefta útbreiðsluna að miklu leyti en Bjarni leggur áherslu á að eldurinn fari ekki í áttina að Grábrók.
„Þetta er bara fótgöngulið,“ segir Bjarni. Slökkviliðið ætlaði að fá þyrlu Landhelgisgæslunnar til aðstoðar en eina nothæfa þyrlan þaðan var send austur á Vopnafjörð þar sem leitað er að skipverja sem talinn er hafa fallið fyrir borð af fiskiskipi á leið þess til hafnar í Vopnafirði um klukkan tvö í dag.
„Við erum með góða aðstoð frá Akranesi og svo senda þessir öðlingar frá Suðurnesjum aðstoð,“ segir Bjarni.
„Þetta er bara bardagi,“ segir Bjarni sem kveðst ekki vita hvenær slökkvistarfi lýkur en býst við því að standa vaktina fram á nótt.