Hringanórinn Kári er kominn heim og gott betur. Eftir að hafa villst suður til Íslands vannærður og heilsuveill í janúar synti hann af stað norður á bóginn í byrjun maí og til heimkynna sinna við ísröndina norður af Vestfjörðum á milli Íslands og Grænlands.
Þar var hann á sveimi um hríð en hélt svo áfram norður til Grænlands, þar sem hann er staddur nú.
Selurinn er samkvæmt þessu við hestaheilsu og ferðast vandræðalítið um höfin sjö, eða allavega eitt, Norður-Atlantshafið. Það fór þannig betur en á horfðist þegar Kári kom í slippinn um miðjan janúar í ár, örþreyttur, vannærður og sýktur af lungnaþráðormi. Hann var hættur að geta aflað sér fæðu í hafi en eftir aðhlynningu í Húsdýragarðinum komst hann á strik.
Hér má fylgjast með ferðum Kára.
Í nokkrar vikur lék hann sér í snjónum á túninu í Húsdýragarðinum, enda undi hann að sögn einkanlega vel við sig í snjó. Hann át fjölmargar síldir á dag og laugaði sig þess á milli í litlu sjólauginni sinni. Svo fór að lokum að starfsmenn garðsins töldu hann í stakk búinn að fara aftur af stað út í lífið, kominn með kjöt á beinin og farinn að éta.
„Fyrst þegar hann kom var hann svo slappur að hann var svolítið svona „baby“. Hann var mjög vingjarnlegur en svo eftir því sem hann hresstist varð hann minna vingjarnlegur. Það kom aftur upp hans eðlilega eðli og hann fór að vera með stæla og var farinn að bíta í mann og réðst mikið á skóna hjá mér. Þannig að þá má segja að þetta var eins og unglingur sem var of lengi heima hjá sér,“ sagði Þorkell Heiðarsson, líffræðingur og deildarstjóri hjá Fjölskyldu- og Húsdýragarðinum, við K100 um vist Kára í garðinum. Hann bætti við: „Þannig að það var ekki eftir neinu að bíða. Bara láta hann fara.“
Honum var sleppt við Ísafjarðardjúp 2. maí og á 16 dögum hefur hann ferðast um 550 km norður til Grænlands og ekki fer sögum af öðru en að honum heilsist vel. Þessi Íslandsvinur er eins árs gamall orðinn og virðist eftir brösuglegt upphaf eiga framtíðina fyrir sér.