Vonuðu að fólk virti reglurnar betur

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir eru ánægðir að …
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir eru ánægðir að sundlaugarnar séu búnar að opna en vilja að fólk virði áfram tveggja metra regluna. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Auðvitað var maður að vona að fólk myndi virða tveggja metra regluna betur en raunin varð,“ segir Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn í samtali við mbl.is um opnun sundlauganna á miðnætti í nótt, en í Laugardalslaug mun hafa verið langstærsta samkoma á Íslandi í langan tíma.

Í myndskeiði mbl.is frá staðnum sást fólk spjalla og skemmta sér í troðfullum heitum pottum og gestir voru samtals vel á fjórða hundrað. Tveggja metra reglan var látin lönd og leið í flestum tilvikum, þó að einhverjir hafi leitast við að virða hana.

„Þetta var viðbúið en eftir því sem ég best veit fóru menn í flestu eftir þeim reglum sem hafa verið settar,“ segir Víðir. „Við áttum auðvitað von á að þröng yrði á þingi þegar yrði opnað enda ljóst að margir vildu komast inn.“

Hið sama segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við mbl.is: „Ég gleðst yfir að fólk skuli í góða veðrinu geta farið í laugina og þvíumlíkt en maður hefði viljað sjá fólk halda tveggja metra regluna betur,“ segir hann. 25. maí, eftir viku, verður tveggja metra reglan þó endurskoðuð, að líkindum þannig að hún sé ekki algild heldur valkvæð og að fólk eigi þess enn kost að hún sé virt.

Hætta á miklu smiti reynist einstaklingur smitaður

Víðir hefur ekki stórkostlegar áhyggjur af framhaldinu í sundmálum en bendir þó á að reynist einstaklingur smitaður í svona hópi geti hann smitað ansi marga þegar hópurinn er svona stór. „En það er síðan auðvitað líka hluti af því að koma samfélaginu aftur í gang og þar liggur áhættan,“ segir hann. „Við vonum áfram það besta og mælingar og rannsóknir sýna auðvitað að samfélagslegt smit er mjög lítið.“

Jákvætt sé að sundlaugar séu opnar aftur, ekki síst á blíðviðrisdögum eins og í dag. „Það er bara vonandi að sundlaugarnar verði vel nýttar og jákvætt að fólk sem þarf á sundinu að halda komist loks í laugina,“ segir Víðir.

Þjón­ustu­tími í sundlaugum er nú hefðbund­inn, þó að aðeins megi helm­ing­ur lög­lega leyfðs fjölda gesta vera í laug­inni hverju sinni. 1. júní miðast það við 75% en 15. júní má hleypa alveg inn eft­ir starfs­leyfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert