Samningafundi í kjaradeilu Flugfreyjufélags Íslands og Icelandair sem átti að hefjast klukkan 17 hefur verið frestað. Þetta staðfestir Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari í samtali við mbl.is.
Beiðni um frestun á fundinum barst frá annarri samninganefndinni en ríkissáttasemjari gat ekki veitt upplýsingar um frá hvorri nefndinni beiðnin barst.
Þá liggur ekki fyrir hvort fundinum verði frestað til morguns eða hvort mögulega verði fundað seinna í kvöld.
Síðasta sáttafundi í kjaradeilunni lauk um klukkan eitt í nótt en fundurinn hófst klukkan tvö eftir hádegi. Lausn er ekki komin í deiluna en Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, sagði í bréfi sem hann sendi öllum starfsmönnum Icelandair fyrir um 10 dögum að langtímasamningar við flugstéttir verði að liggja fyrir áður en hluthafafundur félagsins fer fram næstkomandi föstudag.
Fréttin hefur verið uppfærð.