Frumvarp Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra sem kveður á um lagaheimild til að stofna og reka neyslurými var samþykkt á Alþingi í dag með 42 atkvæðum gegn tveimur en sex þingmenn sátu hjá við atkvæðagreiðslu.
Markmiðið með rekstri neyslurýma er að draga úr skaðlegum afleiðingum af notkun ávana- og fíkniefna.
Neyslurými er skilgreint í frumvarpinu sem „lagalega verndað umhverfi þar sem einstaklingar sem eru 18 ára og eldri geta neytt ávana- og fíkniefna í æð undir eftirliti heilbrigðisstarfsmanna og þar sem gætt er fyllsta hreinlætis, öryggis og sýkingavarna.“
Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, og Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins, greiddu atkvæði gegn frumvarpinu.
Svandís Svavarsdóttir fagnaði niðurstöðunni og sagði um að ræða fyrsta raunverulega skrefið í áttina að því að sinna skaðaminnkun sem studd er af löggjöfinni.