20% aukið vinnuframlag á móti 12% launahækkun

Guðlaug segir stétt flugfreyja standa á öðrum grunni en stéttir …
Guðlaug segir stétt flugfreyja standa á öðrum grunni en stéttir flugmanna og -virkja sem voru með gildan samning fyrir. mbl.is/Árni Sæberg

Enginn fundur hefur verið boðaður í kjaradeilu Flugfreyjufélags Íslands (FFÍ) og Icelandair og engir óformlegir fundir eru í gangi. „Lokatilboð“ Icelandair hljóðaði upp á 12% launahækkun fyrir þær flugfreyjur sem eru á lægstu launum en á móti var 20% aukins vinnuframlags krafist af þeim, sem og frekari eftirgjafar á kjörum. 

Þetta segir Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands. Aðspurð segir hún að deilan sé komin í hnút. „Almennt tíðkast ekki afarkostir í kjaraviðræðum en tilboði Icelandair var stillt upp sem lokatilboði.“

Allar íslenskar flugfreyjur í FFÍ

Lög kveða þó á um fund á tveggja vikna fresti þegar kjaradeilur eru komnar á borð ríkissáttasemjara. Icelandair hefur gefið út að félagið ætli að skoða „aðra kosti“ en þann að semja við FFÍ. Allar íslenskar flugfreyjur og allir íslenskir flugþjónar eru þó í FFÍ, að sögn Guðlaugar og því er erfitt að sjá hvaða aðrar leiðir standi flugfélaginu til boða. 

„Almennt eru stéttarfélög félög launafólks sem eru varin í stjórnarskrá og atvinnuveitendur eiga ekki að skipta sér af. Við erum líka meðlimir í evrópskum og norrænum samtökum stéttarfélaga þannig að við erum með stuðning þaðan líka. Við erum með fullan stuðning bæði íslensku verkalýðshreyfingarinnar og þeirrar erlendu,“ segir Guðlaug. 

Flugmenn og -virkjar höfðu áður fengið launahækkanir

Flugmenn og flugvirkjar hafa nú þegar samið við Icelandair og hefur Icelandair áður gefið það út að mikilvægt sé að semja fyrir hlutafjárútboð félagsins sem á að halda á næstunni. Spurð hvers vegna flugfreyjur hafi ekki samið við Icelandair þótt flugmenn og flugvirkjar hafi nú þegar gert það segir Guðlaug: 

„Þessar stéttir standa á ólíkum grunni því flugmenn og flugvirkjar voru með gildan kjarasamning og hafa fengið launahækkanir á síðasta ári. Þeir standa þá á þeim grunni að búið var að semja um almennar launahækkanir en þeir taka á sig hagræðingu núna sem var verið að biðja okkur um líka. Við erum tilbúin í ýmsar eftirgjafir sem fela í sér hagræðingu fyrir Icelandair en eftirgjafirnar í tilboðinu voru bara of miklar.“

Launin hafa ekki hækkað í tvö ár

Guðlaug bendir á að flugfreyjur hafi ekki fengið launahækkanir síðan í maí 2018 á sama  tíma og launavísitala er búin að hækka um u.þ.b. 9%.  

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, sagði í viðtali við mbl.is í gær að ef tilboð Icelandair hefði verið samþykkt hefði félagið boðið upp á bestu starfskjör sem flugfreyjur og flugþjónar vinna eftir í hinum vestræna heimi. Guðlaug vísar því á bug og segir erfitt að bera saman kjör innan Evrópu þar sem vinnuaðstæður séu mjög ólíkar. 

Þannig fara flugfreyjur og -þjónar Icelandair gjarnan í flugferðir þar sem farið er yfir allt frá tveimur tímabeltum upp í sjö á meðan þær flugfreyjur sem fljúga einungis innan Evrópu fara ekki yfir nein tímabelti. 

Spurð hvort flugfreyjur hefðu viljað sjá lokatilboð Icelandair og hvort samstaða sé innan hópsins segir Guðlaug: „Það er gífurleg samstaða í hópi flugfreyja og flugþjóna. Við ætlum að boða til félagsfundar og fara yfir stöðuna með okkar félagsmönnum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert