„Vaka hefur verið að nota þetta land til að geyma bílflök og ýmislegt annað lauslegt. Það er ekkert leyfi fyrir slíku,“ segir Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri í Mosfellsbæ.
Á fundi bæjarráðs Mosfellsbæjar í gær var fjallað um nýtingu Vöku hf. á landi fyrirtækisins á Leirvogstungumelum. Í bókun sem samþykkt var á fundinum kemur fram að brotið hafi verið gegn reglum um umgengni og nýtingu á landinu og þrátt fyrir loforð um hreinsun hafi fyrirtækið ekki brugðist við athugasemdum bæjaryfirvalda. Er úrbóta krafist tafarlaust.
„Bæjarráð Mosfellsbæjar fer fram á að heilbrigðiseftirlit Kjósarsvæðis bregðist hart við í málinu og beiti tiltækum heimildum sem eftirlitið hefur til þess að sjá til þess að fyrirtækið bregðist við athugasemdum og hætti brotum sínum um umgengi og óleyfilega nýtingu landsins tafarlaust. Bæjarráð skorar einnig á heilbrigðisnefnd Kjósarsvæðis að fylgja málinu eftir af fullum þunga,“ segir í bókuninni.
Í minnisblaði frá Tómasi Guðberg Gíslasyni, umhverfisstjóra Mosfellsbæjar, kemur fram að Vaka keypti umrætt land árið 2018. Þar hyggist fyrirtækið vera með starfsstöð í framtíðinni og athafnasvæði. Þá er rakið að kvartanir hafi borist í ársbyrjun vegna slæmrar umgengni og við eftirlit hafi komið í ljós að mikil uppsöfnun hafi orðið á bílhræjum og gámum á geymslusvæði sem áður var í eigu Ístaks hf. Óskað var úrbóta. Í svarbréfi Vöku frá 18. febrúar var upplýst að fyrirtækið myndi þegar hefjast handa við að hreinsa svæðið og myndi það taka að minnsta kosti fjórar vikur. Bæjaryfirvöld ákváðu að stöðva frekari viðræður við Vöku þar til brugðist hefði verið við með fullnægjandi hætti, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.