Leyfilegt að standa þétt saman

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.

Fólk má sitja eða standa þétt en bjóða þarf þeim sem það vilja að halda tveggja metra fjarlægð samkvæmt minnisblaði Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis vegna frekari afléttinga á samkomutakmörkunum vegna kórónuveirufaraldursins. Frá og með mánudegi verður allt að 200 manns heimilt að koma saman.

Í minnisblaðinu kemur fram að ný skilgreining verði á tveggja metra reglunni svokölluðu.

„Hugmyndin er að sett verði regla sem er svipuð og reglan er varðar aðgengi fatlaðs fólks að ýmissi þjónustu, þ.e. að gert sé ráð fyrir að einstaklingar, sérstaklega viðkvæmir einstaklingar, þurfi meira pláss en aðrir og að einnig geti reglan verið val fólks. Þannig má fólk sitja eða standa þétt en bjóða þarf þeim sem það vilja að halda tveggja metra fjarlægð,“ segir í minnisblaðinu.

Allir eru hvattir til að viðhalda tveggja metra fjarlægðarreglu í samskiptum við aðra eftir því sem aðstæður leyfa.

Í almenningsrýmum skal leitast við að bjóða einstaklingum að halda tveggja metra fjarlægð frá öðrum eins og kostur er. Þar sem veitt er lögbundin þjónusta eða almenningur á ekki kost á öðru en mæta skal vera unnt að tryggja þeim sem það kjósa að halda tveggja metra fjarlægð frá öðrum.

Enn fremur kemur fram að fyrsta aflétting á samkomutakmörkunum var gerð 4. maí og virðist hún ekki hafa leitt til aukningar á sjúkdómstilfellum. Önnur aflétting var gerð 18. maí en þá voru sundlaugar opnaðar. Einungis fimm hafa greinst með kórónuveiruna hér á landi í maí.

Minnisblað sóttvarnalæknis.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert