Innkalla skilyrðislaust 930 Enox-rafskútur

Enox ES100-rafmagnsskúturnar hafa verið innkallaðar.
Enox ES100-rafmagnsskúturnar hafa verið innkallaðar. Ljósmynd/Hópkaup

Hópkaup hafa innkallað skilyrðislaust allar Enox ES100-rafmagnsskútur vegna galla í suðu milli stýrishluta og brettis, en vegna gallans getur stýrishlutinn losnað frá brettinu. Um er að ræða 930 eintök. 

Guðmundur Magnason, framkvæmdastjóri Hópkaupa, segir í samtali við mbl.is að um sé að ræða skútur sem komu til landsins rétt fyrir jól. Suða á um 10-15% skútanna hafi reynst í ólagi og í samráði við Vinnueftirlitið hafi verið ákveðið að innkalla þær. Það hafi fyrst verið gert 4. maí og bréf sent á alla þá sem höfðu keypt skúturnar, en í dag var svo auglýsing um innköllunina birt sem er lokaáfanginn.

Hann segir að vel hafi gengið að fá skúturnar inn á síðustu dögum og vikum. Hann tekur fram að ekki sé um allar rafskútur sem Hópkaup hefur flutt inn að ræða, þar sem fyrirtækið selji skútur frá fleiri framleiðendum. 

Fjallað var um innflutning á þessum sömu skútum í janúar vegna vandamála við innflutning. Þá hafði gámur með skútunum 930 verið stoppaður af Vinnueftirlitinu, en skoðun á hjólunum leiddi í ljós að svonefnda CE-merkingu vantaði á stell hjólanna sem og leiðbeiningar á íslensku. Voru leiðbeiningarnar þýddar stuttu síðar og hægt að afhenda skúturnar í lok janúar.

Suða á milli stýrishluta og brettis getur gefið sig.
Suða á milli stýrishluta og brettis getur gefið sig. Ljósmynd/Hópkaup

Kaupendur skútanna eru beðnir um að skila skútunum í afhendingarmiðstöð fyrirtækisins og stendur þeim til boða að fá nýja skútu annarrar tegundar, bíða eftir að hægt verði að styrkja festingar á umræddum hjólum eða fá endurgreitt. Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Hópkaupa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert