Silja Bára kjörin varaformaður Rauða krossins

Silja Bára Ómarsdóttir.
Silja Bára Ómarsdóttir.

Aðalfundur Rauða krossins á Íslandi fór fram í dag, á átta stöðum á landinu. Um einn fund var að ræða en vegna kórónuveirufaraldursins var brugðið á það ráð að skipta fundinum niður á nokkra fundarstaði víðs vegar um landið með aðstoð tækninnar; á tveimur stöðum í Reykjavík, Hafnarfirði, Borgarnesi, Ísafirði, Akureyri, Egilsstöðum og í Vík.

Frú Eliza Reid forsetafrú flutti ávarp úr höfuðstöðvum Rauða krossins að Efstaleiti 9 og Sveinn Kristinsson, formaður Rauða krossins á Íslandi, þakkaði félagsmönnum og sjálfboðaliðum sérstaklega fyrir þeirra starf og viðbúnað sl. mánuði en margir sjálfboðaliðar hafa breytt verkefnum sínum meðan á samkomubanni stendur og fjölmargir brugðist við og aðstoðað í verkefnum tengdum kórónuveirufaraldrinum, að því er fram kemur í tilkynningu frá samtökunum.

Aðalfundurinn fór fram á átta stöðum.
Aðalfundurinn fór fram á átta stöðum.

Stefna til ársins 2030 samþykkt samhljóða

Segir í henni að ný stefna Rauða krossins á Íslandi, til ársins 2030, hafi verið samþykkt þar sem helstu áskoranir í starfi Rauða krossins til næstu tíu ára séu kortlagðar. Meðal þeirra séu loftslagsbreytingar, krísur og hamfarir, aðgengi að heilbrigðisþjónustu, fólksflutningar og valdaójafnvægi. Áhersla er sögð m.a. lögð á öflugt hjálparstarf í nærsamfélagi, virkt og gefandi starf sjálfboðaliða og traust og ábyrgt félag.

Þá voru einnig ný lög fyrir félagið samþykkt með miklum meirihluta.

Ný stjórn kjörin

Varaformaður Rauða krossins var kjörin Silja Bára Ómarsdóttir, dósent í alþjóðasamskiptum, sem setið hefur í stjórn sl. tvö ár. Þá voru þau Sveinn Þorsteinsson, umsjónarmaður fasteigna hjá Ragnari Guðgeirssyni, Þóra B. Niklásdóttir, starfsmaður í Stöðvarfjarðarskóla, Baldur Steinn Helgason, verkefnastjóri hjá Jónum Transport, Elín Ósk Helgadóttir, aðjúnkt við lagadeild Háskólans í Reykjavík, og Gréta María Guðmundsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri Krónunnar, kjörin í stjórn og þau Anna Rósa Magnúsdóttir, forstöðumaður í eldhúsi Sjúkrahússins á Akureyri, og Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri hjá Brunavörnum Árnessýslu, kjörnir varamenn.

Fráfarandi stjórnarmönnum, þeim Rögnu Árnadóttur, Helga Ívarssyni, Oddrúnu Kristjánsdóttur, Gísla Rafni Ólafssyni og Melkorku Kristinsdóttur, er þakkað fyrir sitt framlag til félagsins.

Allir hafi jöfn tækifæri

Fundurinn samþykkti einnig samhljóða ályktun um mikilvægi þess að huga að fjárhagslegu og félagslegu öryggi fólks sem býr við mikla fátækt:

„Rauði krossinn á Íslandi leggur áherslu á mikilvægi þess að ávallt sé hugað sérstaklega að fjárhagslegu og félagslegu öryggi þess fólks sem býr við mikla fátækt.
Fátækt er ljótur blettur á okkar samfélagi og þegar þrengir að verður staða fólks sem býr við fátækt enn erfiðari en ella og því nauðsynlegt að styðja sérstaklega við þennan hóp.
Miklu atvinnuleysi fylgir ótti um afkomu og félagslegt óöryggi, mikil hætta er á langvarandi áhrifum þessa sem verða ekki hvað síst þungbær fyrir börn í viðkvæmri stöðu.

Rauði krossinn leggur áherslu á mikilvægi þess að allir hafi jöfn tækifæri til þátttöku í samfélaginu og að gerðar verði ráðstafanir til að koma til móts við þá sem minnst mega sín.
Rauði krossinn hvetur því ríki og sveitarfélög til að gæta sérstaklega að fólki sem býr við fátækt á Íslandi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert