Íhuga að fylla upp í laugina vegna umgengni

Laugin er reglulega falleg en umgengni við hana hefur ekki …
Laugin er reglulega falleg en umgengni við hana hefur ekki verið til fyrirmyndar undanfarið. Ljósmynd/Wikimedia Commons

Landeigandi Reykja í Skagafirði íhugar að fylla upp í Fosslaug vegna umgengni Íslendinga. 

Ef Íslendingar geta ekki virt það eins og erlendir ferðamenn að keyra ekki fram hjá hliðunum við Fosslaug þá er afskaplega lítið mál að fylla upp í hana aftur, enda engir hagsmunir af þessu, og moka svo aftur upp úr henni þegar betri aðstaða verður klár,“ segir Dagur Torfason landeigandi í samtali við mbl.is.

„Fólk er að keyra fram hjá hliðum sem það á ekki að keyra fram hjá til þess að þurfa ekki að ganga 600 metra og umgengnin við laugina hefur verið slæm.“

Íslendingar kærulausari og tjalda við laugina

Umgengni við Fosslaug hefur undanfarið verið mun verri en áður, þrátt fyrir að erlendir ferðamenn á landinu séu svo til engir um þessar mundir vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Dagur telur því ljóst að umgengnin sé á vegum Íslendinga. Hann segir aðspurður að verri umgengni íslenskra ferðamanna en erlendra komi honum lítið á óvart. 

„Þeir eru kærulausari, hugsa að þetta hljóti að vera í lagi.“

Við Fosslaug er skilti sem tekur skýrt fram að gisting við laugina sé óheimil. Samt sem áður hefur Dagur orðið var við það að fólk hafi leyft sér að tjalda við laugina með tilheyrandi sóðaskap. 

Ekkert nema ágangur 

Félagar á Sturlungaslóð gerðu Fosslaug upp í sjálfboðavinnu árið 2011. Spurður hvort hann ætli raunverulega að fylla upp í laugina ef umgengnin heldur svona áfram segir Dagur:

„Já. Það er ekkert upp úr þessu að hafa nema ágang hvort sem er.“

Í gær greindi mbl.is frá mjög slæmri umgengni við Hrunalaug í Hrunamannahreppi en landeigendur þar stefna að því að tæma úr lauginni vatnið yfir nóttina.                       

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert