Samfylkingarmenn tala sérstaklega fyrir hagsmunum lítilla og meðalstórra fyrirtækja þessa dagana. Formaður flokksins segir að næsta skrefið sé að skoða sérstakar aðgerðir fyrir þann hóp og formaður velferðarnefndar segir þrjú ár langan tíma fyrir arðgreiðslubann. Lítil fyrirtæki eigi að komast hjá því banni frekar en stór.
Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, telur að skoða megi hvort sérstök skilyrði verði sett fyrir stuðningi stjórnvalda eftir stærð fyrirtækja: „Það má ekki miða allar aðgerðir við risafyrirtæki, sem í raun eru að taka megnið af öllum stuðningnum til sín. Þau ættu þess vegna að lúta sérstökum aðgerðum. Það þarf að skoða fyrst hvernig aðferðirnar bitna á litlum og meðalstórum fyrirtækjum,“ segir hann við mbl.is.
„Þá held ég að umræðan næstu daga og vikur þurfi að snúa að því hvort það þurfi ekki að fara í almennar, markvissari og stærri aðgerðir fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki í landinu, af því að hinar aðgerðirnar hafa miðað fyrst og fremst að þeim stóru. Hér eru heilu vikurnar sem fara í að ræða einstök flugfélög, einstök útflutningsfyrirtæki og einstakar atvinnugreinar,“ segir Logi.
Í þessu samhengi hefur Helga Vala Helgadóttir, þingkona og flokkssystir Loga, gagnrýnt að til stæði að setja sem skilyrði fyrir ríkisaðstoð að fyrirtæki greiddu eigendum sínum arð. Arður væri ekki alltaf óeðlilegur.
„Næstu þrjú árin má fyrirtækið ekki borga eiganda arð eða kaupa eigin hluti og maður skilur alveg þegar maður hlustar á umræðuna í samfélaginu að arðgreiðslur eru algert tabú. Maður verður þó að átta sig á því að sprotafyrirtæki til dæmis, þegar það fer af stað, getur það sjaldnast fengið fyrirgreiðslu í banka,“ sagði Helga Vala á Bylgjunni í vikunni.
„Eigandinn þarf því að taka lán, veðsetja heimili fjölskyldunnar og svo framvegis, og verður þá að fá arð út til að geta borgað lánið niður. Með þessu frumvarpi er pínulítið verið að sparka í sköflunginn á honum, og þessum litlu fyrirtækjum um allt land,“ sagði Helga. Eitt ár án þess að greiða arð væri eðlilegt en þrjú væri langur tími.
Logi segir að Samfylkingin hafi ekki hrapað að neinni niðurstöðu um að tala fyrir því að fella niður bann við arðgreiðslum hjá litlum fyrirtækjum en hann lesi það úr orðum Helgu Völu að hún sé að benda á þann eðlis- en ekki stigsmun sem er á rekstri fimm eða sex manna fyrirtækis sem veltir nokkrum tugum milljóna og kerfislega mikilvægum stórfyrirtækjum og fyrirtækjum á mörkuðum.
„Það sem ég hef talað um á þinginu er að það þarf að ræða atvinnulífið á öðrum forsendum en að þetta sé ein skepna. Við hefðum þess vegna þurft í upphafi að skoða þessi litlu fyrirtæki og fara í beinar almennar aðgerðir fyrir þau og velta því síðan fyrir okkur hvort við hefðum þurft að fara í sértækar aðgerðir sem beinast að þessum risum,“ segir hann.