Verkefnahópur frá Vegagerðinni og Reykjavíkurborg er að hefja vinnu við greiningar og útfærslur á gatnamótum Reykjanesbrautar/Bústaðavegar sem miða að því að leysa flæði bíla og almenningssamgangna. Þetta segir G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar í Morgunblaðinu í dag.
Fram kom í fréttum árið 2017 að Vegagerðin hefði látið vinna útfærslur á mislægum gatnamótum á þessum fjölfarna stað. Síðan hefur sú breyting orðið, að samkvæmt samgöngusáttmála ríkis og borgar er gert ráð fyrir að hin nýja borgarlína aki frá Mjódd inn í Vogabyggð. Því blasir það verkefni við að finna leið fyrir borgarlínu almenningssamgangna um gatnamótin. Þetta getur orðið talsvert snúið úrlausnarefni vegna nálægðarinnar við Elliðaár.
„Þegar niðurstaða vinnu verkefnahópsins liggur fyrir verður farið í for- og verkhönnun. Tímasetning framkvæmda mun síðan taka mið af hönnunarferlinu sem er fram undan og því skipulagferli sem það kallar á,“ segir G. Pétur.
Um margra áratuga skeið hefur verið kallað eftir úrbótum á gatnamótum Reykjanesbrautar/Bústaðavegar.