Píratar mælast næststærsti flokkur landsins í nýrri könnun MMR, en fylgi flokksins mælist 14,6%. Bæta þeir við sig þremur prósentustigum frá síðustu könnun sem birt var 8. maí. Sjálfstæðisflokkurinn mælist áfram stærsti flokkur landsins og bætir við sig 1,3 prósentustigum, meðan hinir stjórnarflokkarnir tveir, Vinstri græn og Framsóknarflokkurinn, missa fylgi.
Samkvæmt könnun MMR mælist Sjálfstæðisflokkurinn með 23,5% fylgi, Píratar með 14,6% og Samfylkingin þriðji stærsti flokkurinn með 13,3% og hækkar um eitt prósentustig milli kannana.
Viðreisn mælist fjórði stærsti flokkurinn með 11,3% en fylgi flokksins lækkar um 0,9 prósentustig milli kannana. Miðflokkurinn bætir við sig 1,1 prósentustigi og mælist nú með 10,8%.
Vinstri græn missa eitt prósentustig og mælast með 10,6% og Framsókn missir 3 prósentustig og mælist nú með 6,4% fylgi. Mælist ríkisstjórnin með 47,5% fylgi í dag, en það er sjö prósentustigum minna en í síðustu könnun þegar stuðningurinn mældist 54,2%.