„Maður á sína neikvæðu daga en yfir heildina er maður bara tilbúin í þetta,“ segir Sólrún Alda Waldorff. Hún og kærasti hennar, Rahmon Anvarov, brenndust afar illa eftir bruna í kjallaraíbúð í Mávahlíð í október en Sólrún var um tíma í bráðri lífshættu.
Rætt var við Sólrúnu í kvöldfréttum RÚV í gær. Hún var í dái í Svíþjóð í mánuð og hefur gengist undir fjölda aðgerða vegna annars og þriðja stigs brunasára. Sólrún og Rahmon eru staðráðin í að halda lífinu áfram en stíf endurhæfing og húðígræðslur eru fram undan.
Upptök eldsvoðans eru talin mega rekja til þess að eldur hafi komið upp í olíu í potti og eigandi íbúðarinnar hafi reynt að hlaupa með hann út, en potturinn dottið í gólfið.
Eigandi íbúðarinnar komst út af sjálfsdáðum, en hið sama gilti ekki um þau Sólrúnu Öldu Waldorff og Rahmon Anvaron, sem lágu sofandi í herbergi sem Rahmon leigði í íbúðinni.
Bati Sólrúnar hefur verið kraftaverki líkastur og hún segir sjálf að núna, rúmu hálfu ári síðar, líði henni bara ágætlega.
Hún beinir því til fólks að hafa brunavarnir í lagi. „Þetta hefði ekki þurft að gerast. Slys verða en það er alltaf hægt að koma í veg fyrir þau. Bara með því að hafa brunavarnateppi og vera viss um að reykskynjarinn sé í lagi. Það hjálpar alltaf.“