Þór Steinarsson
Engar óformlegar viðræður í kjaradeilu Flugfreyjufélags Íslands og Icelandair áttu sér stað um helgina og hvorki hefur verið boðað til óformlegs vinnufundar né formlegs sáttafundar hjá ríkissáttasemjara, segir Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, formaður FFÍ, í samtali við mbl.is.
Síðasti fundur í kjaradeilunni fór fram á miðvikudaginn í síðustu viku en honum var slitið eftir að samninganefnd Icelandair hafnaði móttilboði Flugfreyjufélagsins eftir að Icelandair hafði lagt svokallað „lokatilboð“ á borðið.
„Það er ekkert að frétta. Það ber að boða fund á tveggja vikna fresti og hann verður boðaður fyrr ef tilefni er til,“ segir Guðlaug spurð um stöðu mála. Hún bætir því við að samstaðan og einhugurinn í Flugfreyjufélaginu séu mikil.
„Það gefur okkur vissu um að við séum á réttri braut. Við erum áfram með ríkan samningsvilja og erum til þegar við verðum boðuð á fund,“ segir hún einnig.
Flugfreyjufélagið fundaði með félagsfólki sínu á föstudaginn þar sem farið var yfir stöðu mála í kjaraviðræðunum, „lokatilboð“ Icelandair og síðasta tilboð FFÍ. Forysta félagsins fékk standandi lófaklapp að þeim fundum loknum.
Hluthafafundur Icelandair fór einnig fram á föstudaginn þar sem samþykkt var að heimila stjórn Icelandair Group að fara í útboð í lok júní þar sem félagið mun bjóða út nýtt hlutafé að fjárhæð 22 til 29 milljarða króna.