Vill framleiða kannabis í ónotuðum kerskálum

Í Helguvík standa ónotaðir kerskálar sem hægt væri að breyta …
Í Helguvík standa ónotaðir kerskálar sem hægt væri að breyta í gróðurhús. Ljósmynd/Reykjaneshafnir

Ef kannabisefni eru lögleg annars staðar, af hverju ættu Íslendingar ekki að geta framleitt efnið í sjálfbærum gróðurhúsum til útflutnings? Þetta er spurning sem Margeir Vilhjálmsson, framkvæmdastjóri bílaleigunnar Geysis, hefur velt fyrir sér. 

Í grein sem birt var í Víkurfréttum varpar Margeir fram þeirri hugmynd sinni að breyta ónotuðum kerskálum í Helguvík í gróðurhús og framleiða þar kannabis efni til útflutnings.

Í samtali við mbl.is segir Margeir þessa hugmynd fyrst og fremst vera hugsaða til þess að skapa störf á Suðurnesjum. 

„Þetta er ólöglegt á Íslandi en það eru fjölmargir staðir farnir að leyfa þetta. Við eigum vatn og ódýrt rafmagn og ég veit ekki betur en að hjá þeim sem hafa framleitt þetta hérna, svona bak við tjöldin, hafi gengið bara nokkuð vel. Ef þetta er löglegt annars staðar, af hverju má ekki framleiða þetta hér og fljúga þessu beint til Bandaríkjanna þar sem þetta er löglegt?“ spyr Margeir.

Staðið ónotaðir í einhver ár

Hann segir það synd að stórar byggingar standi ónotaðar í Helguvík og að vel væri hægt að halda þar úti gróðurhúsum. Spurningin er hvað sé arðbærast að rækta. 

„Þessir skálar hafa staðið þarna ónotaðir í einhver ár. Þetta eru nægilega stór hús og það má klárlega nýta þetta á einhvern skemmtilegan máta. Spurningin er hvað sé hægt að rækta í svona stórum gróðurhúsum sem þú getur grætt á. Ég hefði haldið að þetta væri eitthvað sem væri hægt að mokgræða á.“

Vill ekki taka afstöðu til lögleiðingar

Margeir segir þó hugmyndina snúa fyrst og fremst að því að hugsa út fyrir boxið við sköpun starfa.

„Þetta var nú bara svona skemmtileg hugmynd út fyrir boxið. Það er kannski það sem ég er aðallega að benda á, að hugsa út fyrir boxið þegar það er verið að velta fyrir sér nýjum atvinnutækifærum. Þetta er skemmtileg pæling. Hvað getum við gert meira og hvernig? Við höfum þessa tengingu og fljúgum út fiski í massavís til Bandaríkjanna, er ekki eitthvað meira sem væri hægt að gera?“

Hann segist ekki taka neina afstöðu til þess hvort lögleiða ætti kannabis hér á landi. 

„Ég ætla ekki að fara að stíga í þá ormagryfju. En málið snýst um það að við þurfum ekkert að lögleiða kannabis hér til þess að geta framleitt það til útflutnings. Hvað sem fólki finnst um það er þetta bara vara sem er eftirspurn eftir á markaði þar sem þetta er löglegt. Af hverju ættum við ekki að geta framleitt það og gert það betur en aðrir?“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka