Vitum ekki hver staðan verður fyrr en í haust

„Við vitum ekki alveg hver raunveruleg staða verður fyrr en …
„Við vitum ekki alveg hver raunveruleg staða verður fyrr en í haust,“ segir Drífa Snædal. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Forseti Alþýðusambands Íslands segir það eitt stærsta verkefni sambandsins nú að meta stöðuna fyrir haustið. Mjög mikið sé um óvissuþætti.

Við vitum ekki alveg hver raunveruleg staða verður fyrr en í haust,“ segir Drífa Snædal í samtali við mbl.is. Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, hefur gagnrýnt ummæli Drífu frá því í síðustu viku, þar sem hún sagði launafólk taka skellinn í kórónuveirufaraldrinum, og gefið í skyn að hún þekki ekki lífskjarasamninginn. Drífa vill ekki tjá sig um þessi ummæli Vilhjálms.

Akkúrat á þessari stundu vitum við ekki hvert raunverulegt atvinnuleysi verður. Fólk er að reyna að gera sér grein fyrir því hvað gerist í haust þegar fólk er búið með uppsagnarfrestinn sinn, hvað verða margir sem fara í skóla, hvað verða margir farandverkamenn sem eru ekki að koma til landsins, hvað eru margir erlendir verkamenn eða fólk erlendis frá sem hefur farið heim til sín aftur. Það eru margir óvissuþættir í þessu sem spila inn í. Þetta eru getgátur á þessu stigi, hver staðan raunverulega verður. Við vitum að hún getur orðið erfið og þetta eru þær vangaveltur sem eru núna í gangi,“ segir Drífa, spurð út í stöðu mála vegna veirunnar. 

Ákveðin ólga hefur verið innan ASÍ vegna efnahagslegra áhrifa kórónuveirufaraldursins og sagði Vilhjálmur af sér sem fyrsti varaforseti sambandsins vegna ósamstöðu um hvort og hvernig verkalýðshreyfingin gæti komið til móts við atvinnurekendur á þessum erfiðu tímum. Aðspurð segir Drífa engar viðræður í gangi um slíkt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert