Engar stríðsaxir til að grafa

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra eftir …
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra eftir fundinn í kvöld. mbl.is/Þór

„Ég held að það sé búið að skýra misskilninginn og ég held að það sé mikilvægt að svona lagað snúist aldrei um persónur heldur einungis um verkefnin,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra í samtali við mbl.is spurð hvort hún hafi verið ósátt með þau ummæli sem um hana féllu í Kastljósi á RÚV í gærkvöldi.

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, sagði Svandísi vera hrokafulla þar sem hún hafi ekki leitað til Íslenskrar erfðagreiningar þegar kom að því að skipuleggja og útfæra skimun fyrir COVID-19 á landamærum Íslands.

Sagði hann einnig að fyrirtækið myndi ekki koma að verkefninu ef hún yrði unnin undir stjórn heilbrigðisráðuneytisins þar sem samskipti ÍE við ráðuneytið væru á þann veg að fyrirtækið treysti sér ekki til þess. Kári vísaði til þess að Svandís hefði þakkað öll­u starfsfólki sínu á síðasta blaðamanna­fundi al­manna­varna.

Nú er þó komið annað hljóð í strokkinn og hefur Kári greint frá því að það komi til greina að fyrirtækið taki þátt í verkefninu með heilbrigðisyfirvöldum. Fræðslufundur Íslenskrar erfðagreiningar um COVID-19 fór fram fyrr í kvöld og hóf Kári fundinn á því að þakka Svandísi sérstaklega fyrir komuna þrátt fyrir að honum hafi ekki tek­ist að sitja á strák sín­um í gær­kvöldi.

Óhætt að hrósa Íslenskri erfðagreiningu fyrir sitt framlag

Spurð hvort það þetta þýði að búið sé að grafa stríðsaxir milli hennar og Kára sagði Svandís að það hefðu aldrei verið neinar axir til að grafa. Hún sagði alveg óhætt að hrósa Íslenskri erfðagreiningu fyrir sitt framlag á undanförnum mánuðum.

„Mikilvægasta hrósið fær þó íslenskt samfélag en ég hef ítrekað talað um mikilvægt framlag Íslenskrar erfðagreiningar og mun gera það áfram,“ bætti hún við.

Er búið að óska formlega eftir aðstoð Íslenskrar erfðagreiningar við skimun á landamærum?

„Það hefur í raun ekki verið gert með formlegum hætti heldur höfum við sett í gang framkvæmdarteymi sem byrjar núna að vinna. Ég heyri að Íslensk erfðagreining er tilbúin í samtal og það mun væntanlega gerast á morgun að það verði sett í gang,“ sagði Svandís.

Hún býst við tillögum sóttvarnalæknis um hvernig best sé að standa að skimun á landamærum Íslands um helgina. „Það eru þær tímasetningar sem hann gaf mér áðan,“ bætti hún við að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert