Styrkur og auðlind fyrir íslenskt samfélag

Jóhanna Einarsdóttir var formaður stýrihópsins en ásamt henni voru þær …
Jóhanna Einarsdóttir var formaður stýrihópsins en ásamt henni voru þær Hafdís Guðrún Hilmarsdóttir og Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir í stýrihópnum. Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, fagnar skýrslunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Börnum með erlendan bakgrunn vegnar verr í íslensku skólakerfi en jafnöldrum þeirra og það er verulegt áhyggjuefni að því er fram kemur í drögum að stefnu í menntun barna og ungmenna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn. Þessi börn eru ekki vandamál heldur styrkur og auðlind fyrir íslenskt samfélag segir formaður hóps sem vann skýrsluna fyrir mennta- og menningarmálaráðuneytið.

Þau upplifa frekar útilokun, vanlíðan og einangrun. Þau eiga mörg í erfiðleikum með að taka virkan þátt í samfélaginu og ráða við námskröfur. Þeim gengur verr í samræmdum prófum og þau hætta frekar í framhaldsskóla.

Einnig eru vísbendingar um að kennarar telji sig illa í stakk búna til að kenna þessum hópi og finnst þeir eiga erfitt með að sníða skólastarfið að þörfum nemenda með ólíkan menningar- og tungumálabakgrunn.

Á síðasta ári skipaði Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, starfshóp til að kortleggja stöðu þessa hóps og móta drög að menntastefnu sem tekur mið af fjölbreyttum hópi barna og ungmenna frá ólíkum menningarheimum. Starfshópurinn hefur skilað skýrslu þar sem lagðar eru til úrbætur í þessum málum. Jafnframt hefur Lilja kynnt í ríkisstjórn Íslands leiðarvísi um stuðning við móðurmál og virkt fjöltyngi í skóla- og frístundastarfi.

Erum fjölmenningarlegt samfélag

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, segir að mikil áhersla verði …
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, segir að mikil áhersla verði lögð á samfellu milli skólastiga; leik-, grunn- og framhaldsskóla, í nýrri menntastefnu og leyfisbréf þvert á skólastig sé liður í því. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þetta er í fyrsta skipti sem gerð er stefna í menntamálum barna og ungmenna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn á landinu öllu, segir menntamálaráðherra.

Lilja segir að þetta sé liður í þeim aðgerðum sem farið hefur verið í til þess að styrkja menntakerfið enn frekar. „Við vitum hver staðan er og að við þurfum að styrkja hana. Skýrslan og leiðarvísirinn fjalla um stöðuna nú, viðbrögð og tillögur. Fyrsta nálgun er að við erum með fjölmenningarlegt skólastarf og við teljum mikinn ávinning í því fyrir bæði börn með íslensku að móðurmáli og börn sem ekki eru með íslensku að móðurmáli,“ segir Lilja.

Hún segir að mikil áhersla verði lögð á samfellu milli skólastiga; leik-, grunn- og framhaldsskóla, í nýrri menntastefnu og leyfisbréf þvert á skólastig sé liður í því. 

Hluti af því sem starfshópurinn leggur til er þegar komið til framkvæmda. Til að mynda stöðumat fyrir börn sem eru að koma hingað til lands.

Samkvæmt stöðumatinu er lagt mat á fyrri þekkingu, reynslu og námslegri stöðu barna af erlendum uppruna fari fram við upphaf skólagöngu. Matið er fyrir nýkomna nemendur í leik-, grunn- og framhaldsskólum og er aðgengilegt á rafrænu formi. Út frá niðurstöðum verði unnar kennsluáætlanir/einstaklingsáætlanir fyrir viðkomandi nemanda.

Starfshópur hefur skilað mennta- og menningarmálaráðherra drögum að stefnu um …
Starfshópur hefur skilað mennta- og menningarmálaráðherra drögum að stefnu um menntun barna og ungmenna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lilja bendir á að þetta sé nýmæli hér á landi, að horft sé til þekkingar og valds barna og ungmenna á öðrum tungumálum líkt og gert er með stöðumatinu.

Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, sem starfar á fræðslusviði Reykjanesbæjar og er í stýrihópnum, segir að með stöðumatinu séu að koma fram mjög mikilvægar upplýsingar sem ekki hafi komið fram áður.

„Flestir leik- og grunnskólar eru með móttökuáætlun og leggja fram spurningalista fyrir foreldra þegar börnin eru að byrja. Nú er hægt að spyrja mun nánar út í stöðu nemenda og um leið myndast nánara samband og betri tengsl við heimilið. Í framhaldinu er metin staða þeirra í læsi og talnaskilningi,“ segir Halldóra. 

Lilja segir að með stöðumati sé hægt að setja börn á þann stað þar sem þau eiga heima strax við komuna. „Að við sýnum fólki sem kemur hingað þá virðingu sem það á skilið. Við ætlum okkur að styrkja menntakerfið enn frekar og við getum það. Þetta er frábær hluti af því,“ segir Lilja varðandi þá sýn sem kemur fram í skýrslu starfshópsins. 

14% barna af erlendum uppruna

Auknir fólksflutningar, alþjóðavæðing í menntun og á vinnumarkaði og aukinn fjöldi flóttamanna og umsækjenda um alþjóðlega vernd í mörgum löndum hefur í för með sér breytingar og nýjar áskoranir, bæði fyrir einstaklinga og samfélögin í heild.

Ísland hefur ekki farið varhluta af þessari þróun en á stuttum tíma hefur samfélagið breyst frá því að vera tiltölulega einsleitt yfir í það fjölmenningarlega samfélag sem það nú er.

Innflytjendum hefur fjölgað mikið undanfarna tvo áratugi. Nú svipar hlutfalli þeirra af heildarmannfjölda til hinna Norðurlandanna. Þetta er þróun sem átti sér stað mun síðar hér en á hinum Norðurlöndunum. Árið 1995 var einungis 1,8% þjóðarinnar af erlendum uppruna. Í byrjun árs 2019 var sá hópur orðinn 14,1% eða 50.272 manns. 

Jóhanna Einarsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands og formaður stýrihópsins, segir að margt hafi breyst í íslensku skólastarfi á stuttum tíma. Nú séu um 14% barna af erlendum uppruna og allt að 70% í sumum leikskólum.

„Við erum með kennara sem voru að mennta sig þegar staðan var önnur. Við þurfum að styðja mikið við þetta fólk í starfi, til dæmis með símenntun og starfsþróun,“ segir hún en í tillögum starfshópsins er lagt til að tryggt verði að kennsla barna og ungmenna af erlendum uppruna verði hluti af grunnmenntun allra kennara og tómstunda- og félagsmálafræðinga. Jafnframt að kennarar, skólastjórnendur og starfsfólk frístundaheimila sæki símenntun og starfsþróun um fjölmenningu og kennslu barna með fjölbreyttan menningar- og tungumálabakgrunn.

„Við vinnum að því að styrkja stöðu kennarans og höfum trú á því að þegar staða hans er sterk þá smiti það út frá sér. Við erum að leggja lykiláherslu á starfsþróun kennara í þessum greinum sem prófað er úr í PISA-könnuninni og það hefur gefið góða raun í Svíþjóð,“ segir Lilja.  

Nauðsyn að auka símenntun

Hafdís Guðrún Hilmarsdóttir, sem sat í stýrihópum og starfar hjá mennta- og menningarmálaráðuneytinu, tekur undir nauðsyn þess að auka símenntun og að áherslan þar verði á að fræða kennara og starfsfólk skóla við að sinna nemendum sem eru með erlendan bakgrunn. Ekki sé hægt að horfa fram hjá þessum stóra hópi nemenda í íslensku skólakerfi.

Jóhanna segir að í skýrslu stýrihópsins komi skýrt fram að þessi börn eru ekki vandamál heldur er þetta styrkur og auðlind fyrir íslenskt samfélag að fá þetta fólk til okkar. „Við verðum að hætta að vandamálavæða hlutina með því að gera fólk að vandamálum í stað þess að horfa á styrkleika fólks,“ segir hún en í skýrslunni er lagt til að hér verði fjölmenningarlegt skólastarf, sem fagnar margbreytileika, fjölbreytni í nemendahópnum, byggir á auðlindum og styrkleikum barna og ungmenna og verði aðalsmerki skólakerfisins á Íslandi.

Viðhorfsbreyting tekur tíma

Að sögn Jóhönnu snúa sumar þeirra tillagna sem fram koma í skýrslunni að breyttu viðhorfi og það taki tíma. „Byrjunin er að kynna þessar breytingar sem víðast,“ segir hún og bætir við annað séu áþreifanlegir hlutir eins og stöðumat, hugmyndabanki fyrir foreldra og fleira sem er hægt er að gera mjög fljótt. Breytt  viðhorf er aftur á móti eitthvað sem þarf að síast inn.

Hópurinn leggur til að litið verði á menningu og móðurmál barnanna sem auðlind sem kemur börnunum og samfélaginu til góða. Foreldrar séu mikilvægir samstarfsaðilar sem búa yfir ómetanlegri þekkingu sem nýta þarf í þágu barnanna.

Lagt er til að börn og ungmenni, sem læra íslensku sem annað mál, fái íslenskukennslu við hæfi og viðeigandi stuðning í námi svo lengi sem þörf er á. Lögð verði áhersla á að þau geti sem fyrst stundað nám jafnfætis jafnöldrum sínum sem eiga íslensku að móðurmáli.

„Sérstaklega þarf að styðja börn, sem eru fædd hér á landi eða koma ung til landsins, að þau fái strax í leikskóla málörvun í íslensku og fylgst sé með að þau taki reglulegum framförum,“ segir í skýrslunni.

Hampa bakrunni en líka nauðsyn að læra íslensku 

Hafdís Guðrún Hilmarsdóttir sat í stýrihópnum sem vann skýrsluna.
Hafdís Guðrún Hilmarsdóttir sat í stýrihópnum sem vann skýrsluna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hafdís segir að fólk skiptist oft í tvær fylkingar þegar kemur að kennslu fyrir börn með annað móðurmál en íslensku — á að ýta undir móðurmálskennslu eða íslensku eða hvort tveggja? „Hér er verið að fara bil beggja. Það á að gera bæði. Hampa bakgrunninum, því sem þú kemur með til landsins. En þú átt líka að læra íslensku. Að allir séu að stefna í sömu átt er fyrir samfélagið allt,“ segir Hafdís.

Þær Hafdís, Halldóra og Jóhanna segjast vonast til þess  að með þessum tillögum verði tekið tillit til viðhorfa um hvernig eigi að standa að þessu og eins valdeflingu kennara þar sem þeim sé boðið upp á námskeið, bæði innan skólans og utan, þar sem þeir fá menntun í að sinna þessum hópi nemenda.

Að sögn Hafdísar er það í höndum menntamálaráðuneytisins að fara yfir tillögurnar sem þær þrjár hafa unnið ásamt starfshópi sem skipaður var fólki úr mörgum áttum. Innan ráðuneytisins verða tillögurnar kostnaðargreindar,  tímalínur settar upp og mörkuð stefna í þessum málaflokki.

Guðrún Einarsdóttir, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir og Lilja Alfreðsdóttir.
Guðrún Einarsdóttir, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir og Lilja Alfreðsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Áhersla er lögð á samfellu milli leik-, grunn- og framhaldsskóla og frístundaheimila í drögunum og hún verði sett í öndvegi til að tryggja að byggt verði á markvissan hátt á fyrri reynslu og þekkingu barnanna frá einu skólastigi yfir á annað. Unnið verði markvisst að því að styrkja leikskólastigið, auka þátttöku barna af erlendum uppruna í starfi frístundaheimila og fjölga tækifærum nemenda af erlendum uppruna til að stunda og ljúka námi í framhaldsskólum, segir í skýrslunni.

Jóhanna segir þetta mikilvægt atriði, byrja þurfi strax í leikskóla þannig að það sé samfella í náminu. „Það þýðir ekkert að grípa þessi börn undir lok grunnskólans. Það þarf að gera það strax og þau koma til landsins og hefja nám í skólum landsins, á hvaða skólastigi sem er. Annars er hætta á að við missum þau út úr skólakerfinu,“ segir hún en eitt af því sem er bent á í skýrslunni er brotthvarf úr framhaldsskólum.

Þó að brotthvarf innflytjenda úr framhaldsskólum hafi lítið verið rannsakað hér á landi bendir ýmislegt til þess að brotthvarf þessa hóps sé mun meira en innlendra. Nýleg íslensk rannsókn sýnir að mikill munur er á útskriftarhlutfalli úr framhaldsskóla eftir fyrsta tungumáli nemenda. Þeir sem höfðu íslensku sem annað tungumál voru mun ólíklegri til að hafa lokið framhaldsskólanámi 23 til 26 ára en aðrir nemendur samkvæmt því sem fram kemur í skýrslunni. 

Eins benda nýlegar rannsóknir hér á landi til þess að börn af erlendum uppruna séu líklegri til að búa við verri hag og líðan en innfæddir jafnaldrar þeirra. Í nýlegri könnun Rannsókna og greiningar kemur fram að grunnskólanemendum með annað móðurmál en íslensku líður verr í skólanum en jafnöldum þeirra og þeim er sjaldnar hrósað af kennurum. Þeir standa höllum fæti félagslega, eiga síður vini og eru ólíklegri til að vera með vinum sínum eftir skóla á virkum dögum. Einnig finna þeir frekar til einmanaleika, eru í minni samvistum við foreldra sína og taka síður þátt í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi.

Margar ástæður hafa verið nefndar fyrir veikri félagslegri stöðu barna með annan menningar- og félagslegan bakgrunn, svo sem að menntakerfi og menntastefna geri ekki ráð fyrir fjölbreyttum nemendahópum og þar af leiðandi sé skortur á þekkingu á málefnum þeirra í skólum, börnin skorti kunnáttu í íslensku, auk þess sem menningarauður og gildi heimila og skóla séu ólík.

Íslenskt skólakerfi virðist á heildina litið illa í stakk búið til að vinna markvisst með menningar- og tungumálabakgrunn nemenda. Vísbendingar eru um að kennarar á grunnskólastigi nálgist menntun þessa nemendahóps á tilviljanakenndan og misvísandi hátt og byggi á veikum fræðilegum grunni.

Nemendur með erlendan bakgrunn virðast t.d. fá takmörkuð tækifæri til að nota móðurmál sitt í formlegu námi og sumir hafa upplifað neikvæð viðhorf til notkunar þess í skólanum, samkvæmt rannsóknum sem vísað er til í skýrslu hópsins.

„Þegar nemendur eru tví- eða fjöltyngdir skipta þeir oft á milli tungumála eða blanda þeim saman, en skólakerfið á það til að líta á þessa viðleitni nemenda sem neikvæða og jafnvel meina þeim að tala sín móðurmál í skólanum,“ segir í skýrslunni.

Hafa sama metnað og aðrir foreldrar

Samskiptaleysi er oft að há þessum krökkum segir Halldóra. „Foreldrarnir vita ekki hvert þeirra hlutverk er og hver staða barnsins er námslega. Við vitum það svo sannarlega að þessir foreldrar hafa alveg jafn mikinn og í sumum tilvikum enn meira metnað fyrir hönd barna sinna þegar kemur að námi. Þetta sýna rannsóknir sem við höfum kynnt okkur og við verðum að mæta þessum foreldrum,“ segir hún.

Þær eru sammála um að stöðumatið geti skipt hér gríðarlega miklu máli. „Oft kunna kennarar ekki að nálgast þennan hóp og stundum er það ekki fyrr en undir lok grunnskólans sem í ljós kemur hver færni þeirra er,“ segir Halldóra og vísar til þess að slík dæmi hafa komið upp hér að hæfni nemenda með annað móðurmál en íslensku hafi verið stórlega vanmetin. 

Viðbrögð skólakerfisins á COVID-19-tímum

Ein af tillögum hópsins er að lögð verði áhersla á að börnum og ungmennum, sem eru í leit að alþjóðlegri vernd, verði tryggð menntun og skólaganga eins fljótt og unnt er í samræmi við aldur þeirra og þroska. Miðað verði við að ekki líði lengri tími en fjórar vikur frá því að barn sækir um alþjóðlega vernd þar til það hefur fengið skólaúrræði.

Spurðar út í hvort þær eigi von á því að tillögurnar nái fram að ganga segir Halldóra að það hvernig allt skólakerfið brást við þegar kórónuveiran kom hingað gefi von um að virkilega sé hægt að gera eitthvað í að breyta.

„Við fáum upplýsingar um að börn af erlendum uppruna mættu síður í skólann þennan tíma. Svo eru að koma fram upplýsingar um að þegar þau komu til baka þá voru áhyggjurnar nánast óþarfar. Þau komu í góðu standi til baka og voru búin að sinna námi sínu og foreldar þeirra vilja fá meiri ábyrgð. Við þurfum breyta því viðhorfi innan skólakerfisins að þetta séu börn einhvers annars eins og hefur verið lenskan stundum. Opnum á að þetta eru börn okkar allra. Þau eru hluti af heildinni,“ segir Halldóra.

Hafdís bætir við að þetta sé það sama með aðra jaðarhópa. „Að hætta að hugsa um börn sem jaðarhópa heldur að horfa á hvert barn sem einstakt. Það er enginn eins og þar skiptir engu hvaðan hann kemur,“ segir hún. 

Drögin voru kynnt í mennta- og menningarmálaráðuneytinu en fjölmennur starfshópur …
Drögin voru kynnt í mennta- og menningarmálaráðuneytinu en fjölmennur starfshópur kom að gerð skýrslunnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Áhersla er lögð á að efla menntarannsóknir í skýrslu starfshópsins og segir þar að menntarannsóknir varpi ljósi á og greina það sem vel er gert og það sem þarf að ráða bót á. Þetta sé sérstaklega mikilvægt nú þegar íslenskt skólakerfi og samfélag stendur frammi fyrir auknum áskorunum til framtíðar.

Lagt er til að komið verði á fót markvissu átaki til að efla menntarannsóknir sem leið til að stuðla að gæðum í skólakerfinu. Þegar Jóhanna er spurð að því hvað hún telji að geti reynst erfiðast á ná fram af tillögum hópsins segir hún að það sem kostar peninga sé væntanlega erfiðast að koma í gegn, svo sem að efla menntarannsóknir.

Jóhanna segir að lítið fjármagn sé sett í slíkar rannsóknir og það vanti nýtt fjármagn inn í þann málaflokk. „Við þurfum að gera rannsóknir hér á landi til þess að við höfum eitthvað að byggja á. Að við vitum hvernig líðan þessara barna og foreldra er. En þessar rannsóknir eru því miður allt of fáar,“ segir hún. 

Menntarannsóknir eru forsenda upplýstrar ákvarðanatöku og þurfa að liggja til grundvallar þegar stefna og starfshættir í skólum landsins eru mótaðir. Til að stuðla að gæðum í skólakerfinu er nauðsynlegt að byggja á rannsóknum á íslenskum raunveruleika, segir í lokaorðum drögum að stefnu hvað varðar menntun barna- og ungmenna.

„Þetta er stórt og mikilvægt skref í þeirri vegferð okkar að efla alla umgjörð í menntakerfinu til að bæta aðstæður nemenda með annað móðurmál en íslensku. Ég er virkilega stolt af þessari vinnu og hún er okkur hvatning til góðra verka. Sumt getum við ráðist í strax, annað verður útfært nánar í tengslum við nýja menntastefnu en brýnast er að við vinnum þetta samfélagslega mikilvæga verkefni í nánu samstarfi. Við höfum allt að vinna í að bæta þarna úr og það mun skila okkur árangri sem í raun er ómetanlegur – betri lífsgæðum fyrir íslenskt samfélag,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra, um skýrsluna í tilkynningu.

Drögin í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert