Lögreglumaður rotaðist í átökum í útkalli í heimahús á Völlunum í Hafnarfirði í síðustu viku. Tveir lögreglumenn sinntu útkallinu og voru báðir frelsissviptir í átökunum. Greint var frá málinu í kvöldfréttum Stöðvar tvö.
Lögreglu barst tilkynning um hávaða í heimahúsi í hverfinu aðfaranótt sunnudags. Báðir lögreglumennirnir þurftu aðhlynningu á slysadeild eftir útkallið, en lögreglumönnunum var meinað að yfirgefa íbúðina af hópi fólks sem var í samkvæmi í íbúðinni.
Lögreglumönnunum tókst að lokum að komast úr íbúðinni og kalla eftir liðsauka. Tveir menn voru handteknir í íbúðinni og er málið til rannsóknar hjá héraðssaksóknara.
Haft er eftir Arinbirni Snorrasyni, formanni Lögreglufélags Reykjavíkur, að mikið hafi reynt á lögregluna í samkomubanninu sem sett var á vegna kórónuveirunnar og að útköllum í heimahús hafi fjölgað frá því bannið tók gildi um miðjan mars.