Hvíta-Sunna kom í heiminn á hvítasunnudag

Æðarunginn hvíti með systkinum sínum.
Æðarunginn hvíti með systkinum sínum. Ljósmynd/Aðsend

Það var sérstök sjón sem blasti við landeigendum í Árnesi í Árneshreppi á hvítasunnudag þegar sjaldgæfur hvítur æðarungi uppgötvaðist. 

Valgeir Benediktsson, landeigandi í Árnesi, segir hvíta ungan afar sjaldgæfa og skemmtilega sjón. 

„Þetta er mjög sjaldgæft. Ég man eftir að þetta hafi tvisvar gerst áður. Rosalega fallegir ungar, alveg sérstaklega fallegir.“

Æðarunginn var að sjálfsögðu skírður Hvíta-Sunna. 

„Það var viðeigandi, hann fannst nú í hreiðrinu á hvítasunnudag,“ segir Valgeir en alls voru þrjú egg í hreiðrinu. 

Aðspurður hvað valdi því að unginn verði hvítur telur Valgeir líklegast að um albínóa sé að ræða. 

„Ætli þetta teljist nú ekki vera albínói bara. Litningarnir eru gallaðir og hann verður hvítur. Þessi er nú reyndar ekki með rauð augu, heldur dökk. Það er hugsanlegt að ef hann lifir af í náttúrunni geti þetta erfst út frá honum. En þeir eiga erfitt uppdráttar í náttúrunni, hvítir ungar. Aðrir fuglar, jafnvel æðarfuglar, leggja þá í einelti eða skilja þá bara eftir.“

Valgeir segist vel hafa viljað taka ungann að sér og ala hann upp, en að aðstæður hafi ekki leyft það í þetta sinn. 

„Við höfum gert það einu sinni. Það fór svo ekki vel. Þegar við slepptum þeim í sjóinn þá réðu þeir ekki við það og drápust. Það hefði kannski verið skemmtilegt að ala hann upp að einhverjum aldri ef aðstæður hefðu leyft.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert