Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, taldi ekki ástæðu til að víkja frá niðurstöðu lögbundinnar hæfnisnefndar við skipun í embætti ráðuneytisstjóra á síðasta ári.
Þetta kemur fram í skriflegu svari aðstoðarmanns ráðherra, en kærunefnd jafnréttismála komst að þeirri niðurstöðu að Lilja hefði brotið jafnréttislög þegar hún skipaði Pál Magnússon sem ráðuneytisstjóra í ráðuneyti sínu.
„Við mat hæfnisnefndarinnar og með sjálfstæðu mati ráðherra var horft til málefnalegra sjónarmiða sem fram komu í auglýsingu um embættið,“ segir í svari ráðherrans auk þess sem bent er á að samkvæmt skýringum með lögum um stjórnarráð þurfi að liggja fyrir veigamiklar, hlutlægar eða málefnalegar ástæður til að víkja frá mati hæfnisnefndar.
„Því var skipaður ráðuneytisstjóri úr hópi þeirra fjögurra sem metin höfðu verið hæfust, að undangengnum viðtölum. Umsækjendunum fjórum, tveimur konum og tveimur körlum, voru gefnar einkunnir samkvæmt skýru verklagi.“
Bent er á að nefndin hafi verið skipuð hæstaréttarlögmanni, fyrrum rektor Háskóla Íslands og sérfræðingi í mannauðsmálum.