Miðbærinn hafi farið verst út úr COVID-19

„Hvað okkur varðar er bara alls ekki auðvelt að halda …
„Hvað okkur varðar er bara alls ekki auðvelt að halda opinni 800 fm verslun við Laugaveg í dag,“ segir Arndís Björg Sigurgeirsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Annar eigenda bókaverslunar Máls og menningar segir kórónuveirufaraldurinn hafa haft slæm áhrif á reksturinn eins og hjá öðrum, sérstaklega í miðbænum. „Mér virðist vera að miðbærinn hafi farið verst út úr þessu af öllum verslunarsvæðum. Hvað okkur varðar er bara alls ekki auðvelt að halda opinni 800 fm verslun við Laugaveg í dag,“ segir Arndís Björg Sigurgeirsdóttir í samtali við mbl.is.

Tilkynnt var í gær að bókaverslun og kaffihúsi Máls og menningar við Laugaveg yrði lokað um óákveðinn tíma.

Arndís Björg Sigurgeirsdóttir.
Arndís Björg Sigurgeirsdóttir.

Starfsfólk Máls og menningar hefur verið á hlutabótaleið síðan kórónuveirufaraldurinn skall á. „Salan hefur dregist verulega saman og eins og staðan er núna var einhvern veginn ekkert annað í stöðunni en að loka og sjá hvað setur. Þetta var sameiginleg ákvörðun okkar allra. Það er svo erfitt að standa í versluninni og bíða og bíða og bíða. Allt mitt starfsfólk er mjög duglegt og flott fólk, en það var orðið svo niðurdregið. Það var enginn í bænum,“ segir Arndís.

Verslun muni ekki þrífast við Laugaveg

„Ég held hreinlega að það sé búið að venja fólk af því að koma í bæinn. Við sem erum með verslanir við Laugaveg og í nágrenninu, sérstaklega á neðri hluta Skólavörðustígs, höfum látið yfir okkur ganga mjög erfitt viðskiptalegt umhverfi undanfarin ár. Það eru stöðugar götulokanir og stöðugar framkvæmdir í miðbænum sem hafa dregið verulega úr okkur allan þrótt.“

Arndís segist hingað til ekki hafa verið ein af þeim sem hafi hæst um þessi mál en að hugsanlega verði nú breyting þar á. „Okkar sölutölur fara gjörsamlega eftir því hvort göturnar eru lokaðar eða opnar, það er bara þannig. Það þýðir ekki að bera okkur saman við einhverjar nágrannaborgir þar sem er ágætisveður sex mánuði á ári. Ef þessi verður raunin þá mun Laugavegurinn breytast. Ég held að verslun almennt muni ekki þrífast þarna, þá verður þetta bara skemmtileg göngugata með matsölustöðum, krám og einhverju álíka.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert