Hallur Már
„Nú þarf fólk að velja á milli sannleikans og lyga. Skilin eru orðin of skörp,“ segir Bandaríkjamaðurinn Jeffrey Guarino, einn skipuleggjenda samstöðufundar á Austurvelli á eftir. Hann segir hjartnæmt að finna stuðning Íslendinga við málstað svartra í Bandaríkjunum.
Guarino hefur verið búsettur um árabil hér á landi og á hér börn og fjölskyldu en rætur hans liggja í New Haven í Bandaríkjunum þar sem ættfólk hans býr. Hann segist óttast um það nú og atburðir síðustu viku þar sem George Floyd var myrtur af lögreglumanni úti á götu hafa haft djúpstæð áhrif á hann sem svartan mann sem er uppalinn í Bandaríkjunum. Innbyggt og kerfisbundið misrétti á grundvelli kynþátta sé áþreifanlegt.
Í myndskeiðinu er rætt við hann um stuðninginn sem hann finnur hér á landi og atburði undanfarinna daga í heimalandinu. En einnig var rætt við hann hér á mbl.is um helgina.
Fundurinn hefst með upplestri á nöfnum þeldökkra einstaklinga sem hafa verið myrtir af lögreglunni, samkvæmt lýsingu um fundinn sem hefst kl.16:30.
Átta mínútna og 46 sekúndna þögn tekur við en það er sá tími sem lögreglumaðurinn Derek Chauvin lét þunga sinn hvíla á hálsi George Floyd áður en hann lést 25. maí. Þátttakendur eru hvattir til að bera andlitsgrímur og halda fjarlægð við aðra eftir bestu getu.