Fimmtán þúsund króna gjaldið sem ferðamenn á leið til Íslands þurfa að greiða eftir 1. júlí er alltof hátt og virkar í raun eins og skattlagning á ferðamenn. Afbókanir eru þegar byrjaðar að streyma inn vegna ákvörðunar stjórnvalda.
Þetta segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, spurður út í tilkynningu sem nýlega barst frá heilbrigðisráðuneytinu um kostnað við skimanir í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Jóhannes Þór segir að í allri þeirri umræðu sem hefur verið í gangi undanfarin ár um skattlagningu á ferðamenn þá hefði engum dottið í hug að leggja 15 þúsund króna inngöngugjald í landið á ferðamenn. Slíkt sé í raun verið að gera núna.
„Þetta gjald er alltof hátt,“ segir hann og bætir við að um tíu mínútum eftir að tilkynningin barst hafi afbókanir byrjað að berast hjá flugfélögum, ferðaskrifstofum og öðrum ferðaþjónustufyrirtækjum vegna þess hversu hátt það er.
Jóhannes Þór nefnir að gjaldið nemi um 100 evrum, sem sé um 75% af ódýrasta flugmiðanum til Íslands frá Kaupmannahöfn 1. júlí. „Þetta eru verulegir fjármunir í samhengi við það sem fólk er að greiða fyrir flug til Íslands.“ Hann bætir við að fyrir foreldra með tvö börn, annað fætt fyrir 2005, nemi gjaldið 300 evrum eða um 45 þúsund krónum, sem sé ansi mikið.
„Ég skora á stjórnvöld að endurskoða þetta.“
Þýskaland og Ítalía eru á meðal þjóða sem hafa ákveðið að opna landið fyrir ferðamönnum fyrir Evrópubúa án takmarkana. Jóhannes Þór segir ákvörðunina hér á landi pólitíska og ekki tengjast sóttvörnum. „Þetta er ákvörðun sem verður til þess að menn munu margir hverjir, sem ætluðu að ferðast hingað í sumar, ekki líta á það sem kost lengur.“ Segir hann að frekar ferðist fólk annað þar sem ekki þarf að greiða gjald sem þetta.
Jóhannes Þór segir það vel geta verið skynsamlegt að ferðamenn taki þátt í kostnaði við sýnatökur en að gjaldið verði þá að vera mun lægra.