Norðurljósaferðir og 5 stórar hópferðir afbókaðar

Fólk hefur afbókað norðurljósaferðir hingað til lands.
Fólk hefur afbókað norðurljósaferðir hingað til lands. mbl.is/Golli

Fimm stórir hópar afbókuðu ferð hingað til lands fyrr í dag vegna ákvörðunar stjórnvalda um 15 þúsund króna gjald fyrir skimun við komuna til landsins eftir 1. júlí.

Hver hópur telur um 30 til 50 manns, að sögn Jóhannesar Þórs Skúlasonar, framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar.

Einnig hafa einstaklingar verið að afbóka norðurljósaferðir í haust vegna gjaldsins, auk þess sem Icelandair varð strax vart við afbókanir.

Jóhannes Þór telur að verðmæti afbókana hlaupi á milljónum hjá þeim fyrirtækjum sem eru með hópferðir hér á landi og kemur þessi ákvörðun því „afskaplega illa“ niður á þeim. Hann vill ekki nefna um hvaða fyrirtæki er að ræða.

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kostnaðurinn getur lent á ferðaskrifstofum

Jóhannes segir að í einhverjum tilfellum þurfi ferðaskrifstofur sjálfar að borga 15 þúsund krónurnar þegar um pakkaferðir er að ræða sem ferðamenn hafi þegar keypt því ekki gangi að leggja gjaldið eftir á yfir á kúnnann. Allt fer það eftir því hvernig fólki tekst að semja í hverju tilfelli fyrir sig. Í sumum tilfellum óska erlendar ferðaskrifstofur eftir því að skipta kostnaðinum með íslenskum ferðaþjónustufyrirtækjum.

„Öskrað á upplýsingar“

Í samtali við mbl.is fyrr í dag sagði Jóhannes Þór að afbókanir hafi byrjað að berast aðeins tíu mínútum eftir að tilkynningin um gjaldið barst frá stjórnvöldum, sem er vitaskuld afar skammur tími. „Menn verða að átta sig á hvað er búið að vera að gerast undanfarnar þrjár vikur. Það eru allir búnir að bíða eftir einhverjum upplýsingum og það er fylgst gríðarlega vel með, ekki bara fólk erlendis heldur íslensk fyrirtæki. Um leið og það koma svona upplýsingar er reynt að koma þeim hratt til fólks,“ greinir hann frá.

„Fólk gerir sér kannski ekki grein fyrir því að það hefur eiginlega verið öskrað á upplýsingar síðustu vikur og þess vegna er fylgst gríðarlega vel með þessu,“ segir hann og bætir við að þrýstingurinn hafi verið afar mikill frá fólki sem hefur velt fyrir sér hvort það ætti að afbóka eða ekki.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert