Sektaður fyrir að fella níu aspir

Aspirnar voru á milli húsa á Flateyri.
Aspirnar voru á milli húsa á Flateyri. mbl.is

Héraðsdómur Vestfjarða hefur dæmt karlmann til að greiða 200 þúsund krónur í sekt til ríkissjóðs fyrir að hafa fellt níu aspir sem voru í eigu Ísafjarðarbæjar og gróðursettar í minningu þeirra sem fórust í snjóflóðinu á Flateyri árið 1995.

Aspirnar voru gróðursettar á milli tveggja húsa við Drafnargötu á Flateyri og drápust þær allar er þær voru felldar á síðasta ári. Málið var lagt fram á fundi bæjarráðs Ísafjarðarbæjar í morgun.

Maðurinn viðurkenndi að hafa fellt aspirnar. Hann sagðist hafa átt íbúð í húsi við Drafnargötu frá árinu 2011 og hefði tekið húsið í gegn ásamt bróður sínum, m.a. lagnir og garðinn sem hefði verið fullur af öspum.

Taldi sig vera að gera bænum greiða

Maðurinn sagðist hafa haft samband við áhaldahús Ísafjarðarbæjar og óskað úrbóta, m.a. á holum á göngustíg þar sem aspirnar voru. Trén hefðu vaxið án þess að nokkuð hefði verið gert. Húsið sitt hefði verið þakið kvoðu af öspunum og þær slegist í húsið. Síðasta sumar hefði drengur dottið á höfuðið á stígnum og þá hefði hann fjarlægt aspirnar með því að saga þær niður, að því er segir í dómnum.

Maðurinn sagðist hafa ætlað að setja víði í staðinn fyrir aspirnar. Hann sagðist ítrekað hafa kvartað við Ísafjarðarbæ vegna trjánna. Taldi hann sig vera að gera bænum greiða frekar en hitt með því að fjarlægja aspirnar en að því loknu fyllti hann í holurnar.

Auk þess að greiða 200 þúsund krónur í sekt var maðurinn dæmdur til að greiða rúmar 640 þúsund krónur í sakarkostnað.

Þórdís Sif Sigurðardóttir, sem var starfandi bæjarstjóri á þessum tíma, gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins. Hún sagði að ekki hefði verið talin þörf á að taka málið upp í bæjarstjórn. Hennar verkefni hefði verið að vernda eigur bæjarins og því hefði hún kært eignaspjöllin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert