Með því að skima ferðamenn við komuna til Ísland er verið að gera allt sem hægt er til að lágmarka áhættuna á því að kórónuveiran komi aftur inn í íslenskt samfélag. Á sama tíma hjálpar skimunin atvinnulífinu að komast af stað á nýjan leik.
Þetta sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir á blaðamannafundi vegna veirunnar í Ráðherrabústaðnum.
„Ég tel að þetta sé réttasta og besta leiðin til að koma okkur út úr COVID,“ sagði Þórólfur og bætti við að Íslensk erfðagreining muni aðstoða við greiningu í byrjun.
Þórólfur sagði að með skimun ferðamanna muni upplýsingar fást sem hægt verður að notast við til að takast á við veiruna. Hann sagði veirupróf geta greint marga af þeim sem eru raunverulega sýktir, auk þess sem hægt verður að beita öðrum prófum til að komast að því hvort fólk er smitandi eða ekki. Hann benti á að langflestir þeirra sem eru með neikvætt próf eru ekki sýktir.
„Öflug upplýsingagjöf til farþega og öflugir innviðir hér munu vafalaust geta komið í veg fyrir að faraldrar eða frekari útbreiðsla geta átt sér stað,“ sagði Þórólfur og nefndi að ferlið verður í sífelldri endurskoðun. Hægt verður að breyta áherslum með vaxandi reynslu og vitneskju. Til dæmis verður hægt að skilgreina betur áhættusvæði og hvort hægt verður að sleppa skimunum frá ákveðnum löndum. Þórólfur sagði verkefni dýrt en að skimunin sé fjárfesting til framtíðar.
Næsta aflétting á samkomutakmörkunum er fyrirhuguð 15. júní. Þórólfur sagðist eiga eftir að skrifa minnispunkta til ráðherra varðandi tillögur þess efnis en stefnt er að því að hámarksfjöldi fari í 500 manns við næstu afléttingu.
Það sem af er maí og júní hafa 9 greinst með COVID-19 hérlendis, þar af 7 af Íslenskri erfðagreiningu, að sögn Þórólfs. Hann sagði greinilegt að lítið væri um smit í samfélaginu og að þær aðgerðir sem gripið hafi verið til séu að virka.
Hann hvatti jafnframt fólk til að halda áfram einstaklingsbundnum sóttvörnum. Ekki mætti slaka á í þeim efnum.