„Þörf áminning“ um blautþurrkurnar

Skólpflóð við Giljaskóla á Akureyri
Skólpflóð við Giljaskóla á Akureyri Ljósmynd/Aðsend

Skólpflóð við Giljaskóla á Akureyri er „þörf áminning“ um að sturta ekki niður blautþurrkum í venjuleg klósett, að sögn Helga Jóhannessonar forstjóra Norðurorku. Þegar þær ferðast áfram eftir fráveitukerfunum er hætt við að þær festist ein af annarri og stífli á endanum allt.

Það gerðist í gær: Brunnur í grennd við skólann stíflaðist endanlega þannig að ekkert komst lengur í gegn, skólpið fann sér leið yfir í annan brunn rétt við og flæddi þar upp úr en blessunarlega lá leiðin upp á grasflöt fjarri íbúabyggð.

„Það gerðist þannig sem betur fer ekkert, en þetta hefði getað gerst í hvaða götu sem var. Það var heppni að þetta var akkúrat þarna úti á túni,“ segir Helgi í samtali við mbl.is. Hann segir að blautþurrkurnar hafi flækst og vafist utan um aðra aðskotahluti í fráveitunni, flugeldaprik og stálteina, með þessum slæmu afleiðingum. 

Að sögn sjónarvotts sem kom að flóðinu var lyktin í hæsta máta óánægjuleg. Á öðru máli var hundur mannsins, sem brást að sögn áhugasamur við innihaldinu, raunar svo mjög að það þurfti að draga hann af vettvangi. 

Sunnudagur að sumri og enginn í skólanum, sem betur fer.
Sunnudagur að sumri og enginn í skólanum, sem betur fer. Ljósmynd/Aðsend

Sameiginlegt vandamál fólksins

Helgi segir að svona stíflur séu nokkuð sjaldgæfari fyrir norðan en til dæmis í Reykjavík. Alls staðar sé þó áríðandi að brýna fyrir fólki að hætti að sturta þessum þurrkum niður, m.ö.o. stunda „ólöglegt niðurhal“ eins og það var orðað í árvekniátaki um þessi efni fyrir norðan.

„Þetta er sameiginlegt vandamál okkar fólksins. Þarna erum við ekki að ganga nógu vel um kerfin okkar,“ segir Helgi. 



Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert